Óhætt er að segja að raðfrumkvöðullinn Friðrik R. Jónsson sé með mörg járn í eldinum þessa dagana. Friðrik, sem stofnaði Carbon Recycling International, CRI, árið 2006 með það að markmiði að þróa tækni til að umbreyta vetni og koltvísýringi í endurnýjanlegt eldsneyti og hráefni til efnaframleiðslu, metanól, hefur nú hafið vetnisframleiðslu. Auk þess þróar hann umhverfisvænar umbúðir í samstarfi við drykkjarvörurisa og undirbýr lausnir til að græða upp eyðimerkur.
Friðrik mun m.a. fjalla um þessi verkefni sín á janúarráðstefnu Festu á Hilton Nordica í næstu viku.
„Ég á í vetnisfyrirtækinu Maat Energy með félaga mínum sem er prófessor við MIT-háskólann í Cambridge í Bandaríkjunum. Við stefnum að því að verða ódýrasti vetnisframleiðandi í heimi,“ segir Friðrik í samtali við Morgunblaðið.
Friðrik, sem er menntaður flugvélaverkfræðingur og starfaði sem flugmaður í tuttugu ár hjá Icelandair og Arnarflugi, hefur helgað sig umhverfisvænum verkefnum síðan hann hætti að fljúga.
„Í fluginu fékk ég góða yfirsýn yfir plánetuna og mikilvægan skilning á lofthjúpnum,“ segir Friðrik. „Ég áttaði mig á því hvað hjúpurinn er þunnur og viðkvæmur. Í framhaldinu fór ég að leita að tækni sem væri meira í sátt við umhverfið og lífríkið.“
Hann segir að CRI hafi orðið fyrst fyrirtækja til að búa til eldsneyti úr endurunnu koltvíildi. „Í dag er CRI með stærstu verksmiðju í heimi á þessu sviði í Kína og mun fljótlega opna aðra verksmiðju í Noregi.“
Friðrik segist hafa selt hlut sinn í fyrirtækinu til að fjármagna næstu verkefni.
„CRI hefur gengið mun hægar en ég vonaðist til, þó það hafi slegið í gegn í Kína. Ég hefði viljað sjá stóra verksmiðju á Íslandi sem séð gæti íslenska skipaflotanum fyrir eldsneyti.“
CRI rekur tilraunaverksmiðju í Svartsengi. Henni var lokað tímabundið vegna jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga.
„CRI á eftir að verða mjög stórt fyrirtæki. Fjárfestar í dag eru að mestu íslenskir og kínverskir,“ segir hann.
Í erindi sínu hjá Festu hyggst Friðrik ræða um kapítalismann.
„Það er engin launung á því að hann hefur gefið okkur góð lífskjör. Hann er svo skilvirkur og fljótvirkur. En nú er hann kominn að ákveðnum endimörkum. Við höfum gengið of nærri umhverfinu og dýraríkinu. Maðurinn er orðinn of stór í náttúrunni. Við komumst ekki hjá því að umbylta öllu hagkerfinu yfir í grænt hagkerfi eins fljótt og hægt er.“
Lausnin er að mati Friðriks orkugjafar eins og metanól, vetni og rafmagn. „Það þarf líka að búa til fullt af betri efnaferlum. Það er hægt að gera svo miklu betur í þessum efnum.“
Friðrik telur að ástand heimsins sé miklu verra en almennt er talað um. „Skilvirkt markaðshagkerfi og næg olía og kol hafa gefið okkur frábær lífskjör. Án þeirra væri siðmenningin ekki á því stigi sem hún er í dag. En það er engin ástæða til að halda góðum lífskjörum ef náttúran segir okkur hafa gengið of langt. Við erum hluti af stóra samhenginu. Það er eins og margir hafi gleymt því.“
Spurður um helstu varúðarmerki nefnir Friðrik öfgar í veðurfari, eyðimerkurmyndanir og fólksflótta.
„Það stendur upp á okkur tæknifólkið og vísindamenn sem og hagfræðinga að finna upp betri módel sem henta þeim staðreyndum sem við blasa. Ég mun gagnrýna hagfræðinga í mínum fyrirlestri hjá Festu fyrir að koma ekki með módel sem virka í okkar samtíma.“
Friðrik segir að hagfræðimódel sem í dag er beitt í iðnaði í heiminum séu 19. aldar módel. Þar sé ekki tekið tillit til náttúrunnar og kostnaðarins sem umhverfið verður fyrir. „Allt of mörg fyrirtæki eru að svindla á umhverfinu og láta almenning borga brúsann. Þú getur ekki byggt samfélag á svindli. Dæmi um það er tókaksiðnaðurinn sem lengi komst upp með svik gegn almenningi og samfélaginu. Þeir leyndu afleiðingum af reykingum og þeim kostnaði sem samfélagið varð að taka á sig.“
Friðrik segist þó ekki vera bölsýnismaður. Hann segir framtíðina bjarta, svo lengi sem gripið verði strax í taumana. „Það er okkar skylda við náttúruna.“
Vetnisverkefni Maat Engergy er komið vel af stað að sögn Friðriks. Hann segir að Frakkar, þar á meðal franski dekkjaframleiðandinn Michelin, hafi kveikt fyrst á verkefninu.
„Það er tilraunaverksmiðja komin í gang þar í landi og við erum að undirbúa stórt verkefni í Bandaríkjunum. Frakkar eru mjög opnir fyrir nýjungum. Það sem hvetur þá áfram er meðal annars aukin mengun. Bílaframleiðendur hafa áhyggjur af því að verið sé að ýta bifreiðum út úr borgunum. Frakkar hafa þróað vetnisrafal sem er á leið í bíla og þeir eru mjög áfram um að komast í ódýrt vetni eins og það sem við erum að þróa.“
Friðrik segir aðspurður að kostir og gallar fylgi öllum orkugjöfum. Hann segir að metanól sé eðlilegasti orkugjafinn í samtímanum í stað olíu og nefnir að Maersk-skipafélagið danska hyggist innleiða endurnýjanlegt metanól í alla sína starfsemi. Þá segir hann að vetnið sé að koma mjög sterkt inn. Ennfremur sé mikil framþróun í gangi í rafhlöðum.
„Kosturinn við metanólið er að það er algjörlega vandamálalaust. Það flæðir inn í dreifikerfin án vandkvæða og áhættan er mjög lítil. Ókostur vetnis er dreifingin og sprengihættan. En miðilinn er dásamlegur þegar hann brennur. Þá er vatn það eina sem hann skilur eftir sig.“
Spurður um magn vetnisframleiðslu Maat segir Friðrik hana verða gríðarlega.
„Það eru ótal aðilar að gera sig gildandi í vetnisframleiðslu, en okkar tækni er sér á báti. Hún gerir að verkum að orkan verður sú ódýrasta á markaðnum og hægt verður að framleiða hana í stórum stíl.“
Kosturinn við að vera í umhverfisvæna orkugeiranum er sá að sögn Friðriks að mikið af fjármagni bíði á hliðarlínunni og leiti inn. „Hið kapítalíska kerfi og tæknin mun leysa þessi vandamál á endanum. En við þurfum stuðning stjórnvalda til að stýra ferlum í átt að betri lausnum. Það eru ofboðsleg viðskiptatækifæri í grænum ferlum.“
Friðrik réttir blaðamanni nýstárlegar drykkjarumbúðir sem enn eru í þróun. „Drykkjarvörurisinn Pepsico fjármagnar að mestu þessa þróun. Umbúðirnar eru úr pappír eða landbúnaðarstráum. Þær eru fullkomlega endurvinnanlegar og niðurbrjótanlegar og eingöngu úr náttúrulegum efnum. Í þetta fer obbinn af mínum vinnutíma. Ég held að í framtíðinni munir þú drekka bjór úr svona umbúðum.“
Spurður um tímamörk segir Friðrik að drykkjarvörurisarnir á markaðnum muni líklega hefja notkun flasknanna á þessu ári.
Ástæðan fyrir þróun pappaumbúðanna er að sögn Friðriks sú að plast er gríðarlegur skaðvaldur í náttúrunni. „Mig grunar að örplast sé komið inn í helstu nytjastofna við Íslandsstrendur. Þetta gæti komið í bakið á okkur. Við Íslendingar ættum að vera leiðandi í hreinsun hafsins. Við göngum ekki nógu langt þar.“
Friðrik segir að lokum að það sé gríðarlega gefandi að vinna að umhverfisvænum verkefnum.
„Markmiðið með fyrirlestrinum er að hvetja ungt fólk til dáða. Það eru næg tækifæri. Það má ekki taka þessum áskorunum eins og dökku skýi heldur er þetta áskorun um að gera betur og ber að líta á sem tækifæri,“ segir Friðrik að lokum.
Fréttin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. janúar sl.