Ef ekki tekst að gera ÍL-sjóð upp með samkomulagi við skuldaeigendur eða með slitum sjóðsins þarf að svara þeirri spurningu hvort stefna eigi að því að sjóðurinn fjárfesti í auknum mæli og með rýmri áhættumörkum á markaði til að takmarka það tjón sem verður af neikvæðum vaxtamun í rekstri sjóðsins.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar, um aðgerðir vegna ÍL-sjóðs. Þá kemur fram að við slíkar aðstæður yrði að endurskoða heimildir til fjárfestinga.
Bjarni segir í svari sínu að augljóst sé að slíkar breytingar myndu hafa í för með sér umtalsverð áhrif á íslenskum fjármálamarkaði.
Þá kemur einnig fram að leitað hafi verið ráðgjafar um hvort skýrsla um stöðu sjóðsins og mögulegar leiðir í uppgjöri og úrvinnslu eigna og skulda sjóðsins væri til þess fallin að hafa áhrif á lánshæfi ríkissjóðs.
Niðurstaða þeirrar athugunar var að svo væri ekki. Fram kemur að matsfyrirtæki hafi verið upplýst um skýrsluna áður en hún var var kynnt opinberlega og að matsfyrirtækin hafa allt frá uppskiptingu Íbúðalánasjóðs fengið kynningar á markmiðum og möguleikum með úrvinnslu ÍL-sjóðs.
Staða sjóðsins hafi því verið þeim fullljós um nokkurn tíma sem og möguleg áhrif hans á afkomu og skuldastöðu ríkissjóðs og því verði að ætla að þau áhrif endurspeglist þegar í mati á lánshæfi.