Sævar Freyr nýr forstjóri OR

Sævar Freyr er nýr forstjóri OR.
Sævar Freyr er nýr forstjóri OR. Ljósmynd/Orkuveita Reykjavíkur

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, hefur verið ráðinn í starf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur og mun hann hefja störf þann 1. apríl næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu OR.

Bjarni Bjarnason núverandi forstjóri tilkynnti í september að hann hygðist láta af forstjórastarfinu eftir tólf ára starf. Starfið var í kjölfarið auglýst í nóvember og 21 sótti um. Bjarni mun láta formlega af störfum þegar Sævar Freyr byrjar.

Í tilkynningu OR segir að Sævar Freyr búi yfir mikilli reynslu og þekkingu eftir að hafa stýrt stórum fyrirtækjum og nú síðast sveitarfélagi. Hann hefur meðal annars starfað sem forstjóri Símans, 365 miðla og nú síðast sem bæjarstjóri.

Akraneskaupstaður er einn eigenda OR og hefur Sævar Freyr haft hlutverki að gegna gagnvart fyrirtækinu, sem bæjarstjóri, að því er fram kemur í tilkynningunni. Hann hefur meðal annars stutt við framgang Carbfix og nýtt reynslu sína og bakgrunn í verkefnum tengdum Ljósleiðaranum.

Sævar er með cand.oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á markaðsmál. 

„Það er mikið fagnaðarefni fyrir Orkuveituna að fá Sævar Frey til forystu. Hann þekkir fyrirtækið og verkefni þess mjög vel og hefur langa og góða reynslu af umfangsmiklum stjórnunarstörfum, bæði í einkageira og hjá hinu opinbera. Þótt Sævar Freyr taki við góðu búi af Bjarna Bjarnasyni, sem leiddi fyrirtækið út úr fjárhagsþrengingum eftir hrun, eru margar áskoranir framundan í starfi Orkuveitunnar, ekki síst í loftslagsmálunum, þar sem þarf að ná skjótum og miklum árangri. Ég hlakka til að starfa með Sævari Frey og öllu starfsfólki samstæðunnar við að takast á við þær,“ er haft eftir Gylfa Magnússyni stjórnarformanni OR, í tilkynningunni.

„Ég lít fyrst og fremst á Orkuveituna sem þekkingarfyrirtæki sem er afar ríkt af mannauði. Mitt hlutverk er að styðja þetta öfluga fólk til þess að ná árangri bæði í starfi og fyrir samfélagið allt. Alla daga munum við vinna að því að auka lífsgæði og er nú þegar horft til þeirra verka úti í hinum stóra heimi. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Það er því mikið tilhlökkunarefni að fá að kynnast starfsfólki Orkuveitunnar frekar og takast á við þau mikilvægu verkefni sem fram undan eru,“ er haft eftir Sævari Frey.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK