Fulltrúar VR, Landssambands íslenzkra verzlunarmanna, Rafiðnaðarsambandsins og Félags atvinnurekenda funduðu í gær með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra til að ræða tillögur félaganna um lækkun og niðurfellingu tolla í þágu neytenda.
Fundurinn kom í kjölfar fundar samtakanna með Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í síðustu viku og boðuðu báðir ráðherrarnir að þeir myndu í framhaldi af fundunum skoða í sameiningu hvaða möguleikar væru í stöðunni, að því er segir í tilkynningu.
Fyrir ráðherrunum hafa verið kynntar þrjár tillögur, sem allar eru byggðar á eldri tillögum Samkeppniseftirlitsins og Samráðsvettvangs um aukna hagsæld.