Fjárfstingasjóðurinn Inter Long Term Capital frá Lúxemborg keypti fyrir helgi um 6,46% hlut í stoðtækjafélaginu Össur. Um er að ræða 27,3 milljónir hluta.
Með fjárfestingunni verður Long Term Capital næst stærsti hluthafinn í Össuri, en stærsti hluthafinn er danski fjárfestingasjóðurinn William Demant Invest, sem á 50% hlut í félaginu. Sjóðurinn sérhæfir sig í fjárfestingum í heilbrigðisgeiranum. Þá eiga danski lífeyrissjóðurinn ATP og Lífeyrissjóður verslunarmanna sitthvorn 5% hlutinn í félaginu.
Össur er skráð á markað í Nasdaq kauphöllinni í Kaupmannahöfn. Gengi félagsins er nú 34,4 danskar krónur á hlut en var 33,45 danskar krónur á hlut sl. föstudag, daginn sem Long Term Capital keypti hlut sinn í félaginu. Miðað við gengi dagsins þá nemur fjárfestingin um 914,4 milljónum danskra króna eða tæpum 18,8 milljörðum íslenskra króna. Þó er rétt að taka fram að ekki liggur fyrir á hvaða gengi Long Term Capital kaupir hlut sinn og þá hefur ekki komið fram hver eða hverjir hafa selt sína hluti.