Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að mál sem tekist var á um fyrir héraðsdómi í dag, þar sem Landsbankinn var dæmdur til að endurgreiða ofgreidda vexti, varði um 70 þúsund lán.
Bráðabirgðamat Landsbankans er á hinn bóginn að fjárhagsleg áhrif niðurstöðunnar yrði innan 200 milljóna króna, að sögn Rúnars Pálmasonar, upplýsingafulltrúa Landsbankans.
Neytendasamtökin standa á bakvið sex mál af þessum toga komst niðurstaða í tvö þeirra í dag í héraði, þar sem Arion banki var annars vegar sýknaður en Landsbankinn dæmdur til endurgreiðslu vegna skilmála láns með breytilegum vöxtum, sem var ógildur.
„Ég býst ekki við að málið endi hér, við munum væntanlega áfrýja,“ segir Breki.
„Þetta varðar um það bil 70 þúsund lán án ábyrgðar. Það eru því miður ekki til neinar upplýsingar um fjölda lána með breytilegum vöxtum hjá Fjármálaeftirlitinu, sem er eftirlitsaðili með þessu,“ segir Breki og bætir við að samtökin hafi ítrekað beðið um upplýsingar um fjölda lána með breytilegum vöxtum en ekki fengið.
Ofgreiddu vextirnir námu 124.229 krónum hjá öðrum lántakanda málsins en 108.711 krónum hjá hinum.
„Við teljum að þessar fébætur séu eins lágar og mögulegt er og við munum því líklega áfrýja málinu, þar sem við teljum rétt neytenda betri,“ segir Breki. Málið muni hafa síðan sinn gang. Spurður hvort málið fari rakleiðis til Hæstaréttar vegna hagsmunanna sem eru undir segir Breki að það sé óljóst. Fordæmi eru fyrir slíku en máli þar sem tekist var á um uppgreiðslugjald fékk á þarsíðasta ári beina meðferð fyrir Hæstarétti.