Icelandair group og hótelfyrirtækið Berjaya hotels Iceland hafa verið dæmd til að greiða Suðurhúsum ehf., sem er í eigu athafnarmannsins Skúla Gunnars Sigfússonar, samtals 137 milljónir króna. Áður höfðu félögin verið dæmd til að greiða Suðurhúsum 146 milljónir í héraðsdómi, en málið snýst um vangoldna leigu sem hótelfyrirtækið taldi að „force majeure“ ákvæði næði til vegna faraldursins. Landsréttur féllst ekki á það og þurfti félagið að greiða alla vangoldnu leiguna.
Upphaf málsins nær til þess þegar Icelandair hotels, þá í eigu Icelandair, skrifuðu undir samkomulag við Suðurhús um leigu á húsnæðinu að Hafnarstræti 17-19 þar sem Icelandair Hotels og síðar Berjaya hefur rekið Reykjavík Konsúlat Hotel. Samningurinn var gerður árið 2014 og náði til ársins 2036.
Icelandair seldi hótelkeðju sína síðar til Berjaya, en gekkst undir að bera ábyrgð á greiðsl sex mánaða leigu.
Í heimsfaraldrinum var hótelinu lokað um tíma og greiddi leigutakinn þá aðeins 20% af umsömdu leigugjaldi frá apríl 2020 til nóvember sama ár. Suðurhús fóru fram á að fá greiddar vangoldnu leigutekjurnar samkvæmt samningnum.
Berjaya taldi að svokallað „force majeure“ ákvæði næði til þeirra aðstæðna sem áttu sér stað í faraldrinum, þ.e. að brostnar forsendur væru til staðar sem væru ófyrirsjáanlegar og óviðráðanlegar og væru ótengdar rekstrinum að öðru leyti.
Landsréttur segir í dómi sínum að að ekki komi til greina að beita reglunni um brostnar forsendur, en meðal annars er bent til þess að greiðsluskylda falli ekki niður við slíkar aðstæður og að skuldara beri að efna skuldbindingar sínar þegar efndahindrun sem fellur undir „force majeure“ væri úr vegi.
Þá er bent á að bæði félögin hafi notið góðs af ýmsum mótvægisaðgerðum stjórnvalda í faraldrinum. Þá hafði leigutakinn húsnæðið til fullrar ráðstöfunar allan tímann sem krafa Suðurhúsa náði til. Fallist á að Berjaya bæri að greiða vegna vangoldinnar leigu samkvæmt samningi og að Icelandair bæri ábyrgð á þeim hluta sem það hefði skuldbundið sig til í samningnum.
Er Icelandair group gert að greiða Suðurhúsum 137,8 milljónir auk dráttarvaxta, en þar af þarf Berjaya sameiginlega með Icelandair að greiða 109,5 milljónir auk dráttarvaxta.