Áformað er að hefja sölu íbúða á Heklureitnum í Reykjavík vor eða sumar 2025. Örn Kjartansson fjárfestir segir gert ráð fyrir rúmlega 180 íbúðum í tveimur fyrstu áföngunum á reitnum en þar verði alls um 440 íbúðir.
Undanfarið hefur staðið yfir niðurrif á horni Laugavegar og Nóatúns en þar rísa tvö fyrstu fjölbýlishúsin, sem hér eru sýnd á teikningu.
Á þessu horni og á aðliggjandi lóðum áforma Örn og viðskiptafélagar hans að reisa um 440 íbúðir á næstu árum. Miðað við að meðalsöluverð íbúðar sé 80 milljónir er söluverðmæti íbúða á reitnum um 35 milljarðar króna.
Keyptu lóðirnar haustið 2021
Örn og viðskiptafélagar hans keyptu lóðirnar sem mynda Heklureitinn haustið 2021.
Örn upplýsir að reiturinn skiptist í minni reiti, A, B, C, D og E, og að 83 og 103 íbúðir verði á reitum A og B á Laugavegi 168 og 170. Áformað sé að hefja sölu íbúða á A-reit vor eða sumar 2025 og svo sölu íbúða á B-reit sex til átta mánuðum síðar.
Eins og sjá má á teikningunni er gert ráð fyrir að fyrstu húsin verði átta hæðir Laugavegsmegin en stallist svo niður að Brautarholti.
„Húsin tvö eru stórir skrokkar, með 83 og 103 íbúðum, sem gerir það að verkum að við getum búið til margar vörur í einu húsi. Það er að segja boðið upp á íbúðir fyrir marga hópa og þar með stóran kaupendahóp. Við erum með íbúðir af öllum stærðum, allt frá 47 fermetrum upp í um 150 fermetra, og þar með talið íbúðir á tveimur hæðum fyrir stærri fjölskyldur en húsið stallast mjög hratt niður sem skapar góð birtuskilyrði í öllum íbúðum. Út af stölluninni fáum við líka töluvert af einkaþakgörðum en jafnframt verður stór sameiginlegur þakgarður fyrir alla íbúa,“ segir Örn og vísar til A-reits.
Frá 60 milljónum króna
Spurður um verð íbúða á Heklureit segir Örn eftir að ákveða verðið en ætla megi að það verði frá 60 milljónum og að margar íbúðanna muni kosta um 100 milljónir. Svo bendir hann á að byggingarkostnaður hafi hækkað mikið undanfarið og meira en byggingarvísitalan gefi til kynna.
„Maður sér ekki fyrir endann á því en margir þættir byggingarvísitölunnar hafa verið að hækka mikið meira en byggingarvísitalan hefur verið að endurspegla. Hún er birt með svo mikilli tímatöf. Það að stál hafi hækkað kannski um 140% hreyfir ekki byggingarvísitöluna að sama marki,“ segir Örn að lokum.
Ítarlega var rætt við hann um viðskiptaferilinn í miðopnuviðtali ViðskiptaMoggans í þessari viku.