Seðlabankinn braut á Þorsteini Má

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson

Persónuvernd hefur úrskurðað að varðveisla Seðlabanka Íslands á persónuupplýsingum um Þorstein Má Baldvinsson forstjóra Samherja hafi ekki samrýmst lögum um persónuvernd. Þetta kemur fram í úrskurði sem birtur er á vef Persónuverndar. Um er að ræða gögn sem safnað var við húsleit Seðlabankans hjá Samherja í mars 2012, þar sem Samherji var grunaður um brot á gjaldeyrislögum. Ekkert varð úr þeim málatilbúnaði Seðlabankans.

Persónuvernd hafði áður úrskurðað að varðveisla persónuupplýsinganna hefði verið lögmæt en Þorsteinn Már óskaði eftir endurupptöku með vísan til nýrra upplýsinga. Persónuvernd varð við því og sneri fyrri úrskurði sínum að hluta. Þorsteinn Már, sem höfðaði málið í eigin nafni, segir í samtali við Morgunblaðið að hér sé um að ræða enn eitt brot Seðlabankans gagnvart stjórnendum og starfsfólki Samherja.

Áttu að eyða gögnum

Fyrrnefndu gjaldeyrismáli lauk með dómi Hæstaréttar í nóvember 2018, rúmum sex árum eftir að málið hófst. Við húsleitina í mars 2012 lagði Seðlabankinn hald á mikið magn af rafrænum gögnum, um sex þúsund gígabæt, sem geymd voru á þremur hörðum diskum. Þau gögn voru enn í vörslu Seðlabankans vorið 2020, einu og hálfu ári eftir að málinu lauk.

Persónuvernd taldi að varðveisla Seðlabankans á persónuupplýsingum Þorsteins Más, frá þeim tíma er stjórnsýslumáli bankans gagnvart honum lauk með dómi Hæstaréttar, hefði ekki samrýmst ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá má geta þess að einnig voru varðveitt gögn um aðra starfsmenn og viðskiptavini Samherja.

Ættu að greiða miskabætur

„Ég vissi að á hörðu diskunum voru einnig gögn um persónuleg málefni hundraða annarra einstaklinga. Þess vegna vildi ég fá endanlega niðurstöðu um málið, ekki síst starfsfólksins vegna og viðskiptavina Samherja, sem hafa ekkert með málið að gera,“ segir Þorsteinn Már og bætir því við hann sé ánægður með niðurstöðuna í málinu. Þá segist hann telja að Seðlabankanum beri að greiða umræddum einstaklingum miskabætur vegna málsins.

„Bankaráð Seðlabankans hlýtur að taka málið til skoðunar. Þá er eðlilegt að þeir bankaráðsmenn sem höfðu vitneskju um ólögmæta varðveislu gagnanna á sínum tíma víki sæti við þá skoðun. Ég vonast til að Seðlabankinn hafi frumkvæði að slíkum greiðslum til allra þeirra sem hann hefur brotið á,“ segir Þorsteinn Már.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK