Mikill fjöldi ferðamanna flaug á brott frá Keflavíkurflugvelli í nýliðnum janúarmánuði. Það eru þó ekki ferðamennirnir sem slá brottfaramet að þessu sinni heldur Íslendingar.
Brottfarir Íslendinga voru í janúar 41.500 talsins en fyrra met var 40.600 og hafði staðið frá 2019. Það virðist því vera að ferðaþorsta landans eftir kórónaveirufaraldurinn hafi ekki enn verið svalað.
Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans sem rýnir í tölur Ferðamálastofu.
Brottfarir erlendra ferðamanna eru sagðar nokkurn veginn á pari við janúarmánuð ársins 2019, áður en faraldurinn skall á. Bretar og Bandaríkjamenn eiga tæplega helming brottfara erlendra ferðamanna í janúar eða 58 þúsund af 121 þúsund.
Þrátt fyrir að brottförum erlendra ferðamanna í janúar hafi ekki fjölgað frá því 2019 eyða þeir nú meiru en áður hér á landi,
Kortaveltan nam 16,7 milljörðum króna í mánuðinum sem um ræðir sem er 117 prósent meira en á sama tíma árið 2022 og 8 prósent meira en 2020. Þá var kortaveltan jafn mikil og í janúar 2019 þrátt fyrir færri ferðamenn.
Ferðamenn greiddu rúmlega fjóra milljarða í gistiþjónustu í janúar, 2,5 milljarða í verslun og annað eins í veitingaþjónustu. Þá fóru tæplega tveir milljarðar í bílaleigu og rúmlega hálfur milljarður í menningu, tómstundir og afþreyingu en fjárhæðir þessar voru greiddar með greiðslukortum.
Útreikningar þessir eru allir gerðir á föstu gengi en með föstu gengi er átt við að ferðamenn séu að eyða meira í eigin mynt.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ánægjulegt að sjá ferðamannastrauminn yfir vetrartímann komast í eðlilegt horf.
„Þetta er svona það sem við, fyrir faraldur, kölluðum „eðlilega vetrarferðamennsku“, þar sem þessi þrjú þjóðerni raða sér frekar ofarlega,“ segir Jóhannes.