Greiðslubyrði óverðtryggðra lána með breytilegum vöxtum og jöfnum afborgunum hefur vaxið um 77,3% frá því vaxtahækkunartímabil Seðlabanka hófst. Þannig hefur t.a.m. mánaðarleg greiðslubyrði 40 milljón króna láns til 40 ára farið úr því að vera 152.697 kr. í 270.778 kr mánuði ef miðað er við vexti fasteignalána hjá Íslandsbanka.
Vextir bankans eru á óverðtryggðum lánum er 7,75% eins og sakir sanda en vextir lánastofna fasteignaveðlána er frá 6,9% -7,84% á Íslenskum lánamarkaði skv. því sem fram kemur á Auðbjörgu.is.
Nýleg vaxtahækkun stýrivaxtahækkun Seðlabanka er ekki komin fram í vaxtaákvörðunum bankanna. Ef vextir á almennum markaði hækka um 0,5% líkt og síðasta stýrivaxtahækkun ber með sér gæti hækkunin numið í 87% ef miðað er við ofangreint sýnidæmi.
Þannig gætu afborganir orðið rúmar 285.786 kr á 40 milljón króna láni en það er hækkun upp á rúmar 133.000 kr á mánuði frá því vextir voru lægstir.
Til samanburðar hafa afborganir af 40 milljón króna verðtryggðu láni hækkað um rúmar 18 þúsund kr eða um 15% frá því vextir voru lægstir.
Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri, segir ástandið fordæmalaust með tilliti til þess að áður í Íslandssögunni hafi lán heimilanna að mestu saman staðið af verðtryggðum lánum. „Ég hef mikla samúð með fólki þar sem allt kostar miklu meira,“ segir Ásgeir.
Hann segist vonast eftir því að verðstöðugleiki náist fljótt. „Staðgreiðsla á verðbólgunni kaffærir marga. En á sama tíma fer höfuðstóllinn niður í framtíðinni að raunvirði. Auðvitað er erfitt fyrir fólk að eiga við það. En ég tel að ef við náum verðstöðugleika fljótlega þá eigum við alls ekki að gefast upp á þessu nafnvaxta kerfi,“ segir Ásgeir.
Hann viðurkennir þó að hætt sé við því að fólk velji verðtryggð lán í stórum stíl eins og sakir standa. „ Það var ekki svona hörð umræða um verðbólguþróun þegar fólk var með verðtryggð lán. En svo má ekki gleyma þvi að verðbólgan er líka innflutt þar sem matvara og önnur aðföng hafa hækkað um allan heim,“ segir Ásgeir.