Heildarhagnaður Símans á árinu 2022 var rúmir 38 milljarðar króna. Rekstrarhagnaður Símans fyrir afskriftir nam 6,15 milljörðum króna á árinu og jókst um tæp 12% á milli ára. Heildarhagnaður félagsins skýrist helst af sölunni á Mílu til franska fjárfestingasjóðsins Ardians.
Stjórn Símans leggur til að greiddur verði 500 milljóna króna arður, en einnig er ráðgert að lækka hlutafé um 15,7 milljarða með greiðslu til hluthafa. Í nóvember sl. voru 31,5 milljarðar greiddir til hluthafa og fá þeir því alls um 47 milljarða króna greidda vegna sölunnar á Mílu. Fjárfestingarfélagið Stoðir er stærsti einstaki hluthafi Símans, með tæplega 16% hlut.
Í uppgjörstilkynningu félagsins kemur fram að mögulegar fjárfestingar Símans á Íslandi yrðu ekki af þeirri stærðargráðu að þörf væri á söluverðmæti Mílu. Eftir stendur eignalétt þjónustufyrirtæki en bundnar eru vonir við að samkeppnisréttarlegum kvöðum sem hvíla á félaginu verði aflétt eftir söluna.