Samkvæmt nýjum samanburði samtaka áfengisframleiðenda í Evrópu, Spirits Europe, á Ísland Evrópumetið í áfengissköttum. Ísland hefur haldið metinu undanfarin ár og eykur nú forskot sitt á nágrannalöndin.
Ísland er eina landið í Evrópu sem hækkar áfengisskatta umfram hækkun samræmdrar vísitölu neysluverðs. Aðeins eitt land hækkaði áfengisskatta meira en Ísland, en það var Tyrkland þar sem verðbólga á liðnu ári var 64,3%. Það er þó aðeins á Íslandi þar sem að áfengisskattar hækka að raungildi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda.
Samkvæmt samanburði Spirits Europe á skattlagningu á hektólítra hreins vínanda kemur í ljós að Ísland trónir á toppnum í öllum flokkum. Skoðaðir eru flokkarnir sterkt vín, styrkt vín, léttvín og bjór.
Sem dæmi má nefna að skattur á sterkt áfengi á Íslandi er u.þ.b. sexfaldur á við skattinn á sterkt vín í Danmörku. Skatturinn á léttvín er fimm sinnum hærri hér á landi en í Danmörku, og þegar bjórinn er skoðaður sést að skatturinn á Íslandi er meira en áttfaldur á við skattinn hjá frændum okkar í Danmörku.
Ef skoðuð er heildarskattlagning á áfenga drykki á Íslandi samanborið við önnur lönd í Evrópu, kemur í ljós að eina tilvikið þar sem samanlögð skattlagning, þ.e. áfengisskattur og annar skattur, t.d. virðisaukaskattur, er meiri en á Íslandi, er skattur á bjór í Noregi. Áfengisskattar á sterkt vín, styrkt vín og léttvín eru hins vegar umtalsvert hærri á Íslandi en í Noregi.