Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir Ísraelsmenn hafa sýnt mikinn áhuga á nýju flugleiðinni milli Tel Aviv og Keflavíkur.
Ísraelska borgin Tel Aviv er meðal nýrra áfangastaða hjá Icelandair. Bogi Nils segir aðspurður að viðbrögðin hafi verið góð.
„Og það á við um alla nýju áfangastaðina okkar.“
Wow Air flaug á sömu leið forðum. Haustið 2018 ræddi Morgunblaðið við Skúla Mogensen, forstjóra Wow air, sem boðaði að flugið til Ísraels hæfist á ný hinn 11. júní 2019. Af því varð ekki enda hætti flugfélagið starfsemi í lok mars það ár.
Flug Wow air hafði þá vakið athygli í Ísrael. Dæmi um það er viðtal Morgunblaðsins við Ilanit Melchior, framkvæmdastjóra ferðamála hjá Ráðstefnu- og ferðamannaskrifstofu Jerúsalemborgar, í mars 2018. Hún sagðist þakklát fyrir viðtökurnar sem Íslendingar hefðu sýnt Ísrael en að enn væri mikið verk óunnið við að kynna kosti landsins og ekki síst Jerúsalemborgar sem spennandi áfangastaður hér á landi.
Spurður hvers vegna Icelandair hafi valið þessa leiða vísar Bogi Nils til eftirspurnar ytra. „Það er einfaldlega vegna þess að Ísrael er mjög sterkur markaður og þar er mjög sterk eftirspurn eftir ferðum til Íslands. Okkar fólk í leiðakerfisstýringunni er stöðugt að greina ný tækifæri og skoða hvernig við getum vaxið milli ára á sjálfbæran hátt og þróað leiðakerfið áfram. Jafnframt erum við að tengja Tel Aviv við Bandaríkin í gegnum Ísland en það er talsvert eftirspurn eftir flugi milli Tel Aviv og Bandaríkjanna,“ segir Bogi Nils Bogason að lokum.
Flugið milli Íslands og Ísraels hefur skapað nýja möguleika í ferðaþjónustu. Dæmi um það er heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu í dag vegna haustferðar til landsins helga.