Eva Margrét Ævarsdóttir og Guðrún Lilja Sigurðardóttir eru nýir meðeigendur LEX lögmannsstofu.
LEX er 60 manna lögmannsstofa, en þar af eru 19 eigendur. Í tilkynningu segir að sjö konur séu nú meðeigendur og hafa aldrei verið fleiri.
Eva Margrét er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Hún sérhæfir sig í verkefnum sem tengjast sjálfbærni eða UFS sem vísar til umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta (e. environmental, social, governance (ESG)) og leiðir ráðgjöf LEX á því sviði.
Eva Margrét er með L.LM gráðu í Evrópurétti frá KU Leuven í Belgíu, lagapróf frá Háskóla Íslands og hefur lokið stjórnendanámi frá IESE Business School í Barcelona. Hún starfaði áður hjá LEX á árunum 2006-2013 en sneri aftur til starfa á stofunni árið 2021.
Guðrún Lilja er lögmaður með málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi. Hún leggur megináherslu á samkeppnisrétt, félaga- og skattarétt og samningarétt.
Guðrún Lilja er með ML-próf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hóf fyrst störf hjá LEX árið 2012.