Eitt erfiðasta verkefnið fyrir peningastefnuna var þegar fólk sparaði peningana sína í kórónuveirufaraldrinum og kom svo með þá aftur inn í kerfið af fullum krafti að honum loknum.
Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun.
„Við sitjum uppi með að við erum eini aðilinn sem er með eitthvað aðhald og þurfum að hækka stýrivexti og svo þurfum við að mæta á svona fundi með ykkur þar sem þið eruð að skamma okkur,“ sagði Ásgeir og bætti við að hann og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, hafi komið ellefu sinnum fram til að tilkynna um hækkun stýrivaxta. Á þeim fundum hafi þau verið þráspurð hvers vegna þau séu að gera þetta.
„Sumt sér maður fyrir, annað ekki en þetta eru verkefnin sem við erum að vinna að,“ sagði hann og bætti við að stýrivaxtahækkanirnar hafa virkað. Þeim sé ætlað að hægja á kerfinu og kæla það niður.
„Það er sársaukafullt og það verður mikið af reiðu fólki sem mun reyna að lesa gamlar blaðagreinar eins og þið eruð að gera og herma upp í okkur orð frá öðrum tíma en þetta er staðan, við erum með verkefni og það hefur gengið upp að miklu leyti,“ bætti hann við.
Ásgeir tók hann einnig fram að ef Ísland væri með evruna væri verðbólgan hérlendis mun hærri og nefndi 7% hagvöxt á síðasta ári og aukna atvinnuþátttöku sem dæmi um góðan árangur. „Þú finnur ekki annað Evrópuland í þessari stöðu“.
Rannveig benti á að hefði Seðlabankinn vitað, þegar hann byrjaði að hækka vexti árið 2021, af Úkraínustríðinu og afleiðingum þess og gert sér grein fyrir áhrifum kjarasamninganna hefðu hún og Ásgeir ekki mætt 11 sinnum til að tilkynna um hækkun vaxta, heldur gert það einu sinni, í eitt skipti fyrir öll.
Þau hefðu tekið ákvarðanir út frá þeim upplýsingum sem þau höfðu í hvert sinn og það væri ástæðan fyrir þessum mörgu litlu skrefum stýrihækkana.
„Í nóvember þegar við vorum að taka ákvörðun um vexti vorum við að gera ráð fyrir því að verðbólgan á síðasta fjórðungi þessa árs yrði 4,4%. Núna erum við að gera ráð fyrir því að hún verði 5,8%. Hefðum við verið með þá spá í nóvember, þá höfðum við náttúrulega tekið ákvörðun um miklu hærri vexti,“ sagði Rannveig.