Húsnæðismarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sýnir nú merki kólnunar. Þriðja mánuðinn í röð lækkar vísitala íbúðaverðs á milli mánaða. Íbúðaverðið lækkaði um 0,5 prósent á milli desember og janúar. Árshækkun vísitölunnar hefur ekki mælst lægri síðan 2021.
Reiknað er með að kólnun þessi muni eiga þátt í því að ná verðbólgunni niður. Fasteignaverð utan höfuðborgarsvæðisins sé þó ekki byrjað að lækka. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans.
Þess er minnst að þriggja mánaða lækkun vísitölunnar hefur ekki sést síðan árið 2009. Þó voru lækkanirnar meiri á milli mánaða á þeim tíma.
Hlaupandi meðaltal er notað þegar vísitala mánaðana þriggja er sett fram, meðaltalið byggir á verðþróun á fjöl- og sérbýli. Fjölbýli lækkaði um 0,4 prósent á milli mánaðanna sem um ræðir og sérbýli 0,74 prósent.
„Síðustu þrjá mánuði hefur sérbýli lækkað um 4% og síðustu 6 mánuði um 2,5%. Ekki má greina jafn snögga kólnun á fjölbýli sem hefur lækkað um alls 0,7% síðustu þrjá mánuði og hækkað um 0,2% sé litið til síðustu 6 mánaða. Sérbýli hækkaði hraðar en fjölbýli þegar mestu hækkanirnar voru í fyrra og árið á undan og virðist að sama skapi einnig lækka hraðar nú,” kemur fram í Hagsjánni.
Hvað varðar árshækkun vísitölunnar mælist hún nú 14, 9 prósent og hefur ekki mælst lægri síðan í maí 2021.
Þá hafa færri kaupsamningar ekki verið undirritaðir á höfuðborgarsvæðinu síðan í janúar 2011 af bráðabirgðatölum að dæma. Voru þeir 280 í janúar þessa árs. Þetta er ansi mikil lækkun síðan í desember en þá voru kaupsamningarnir 529 talsins.