Neytendastofa hefur bannað Nýju vínbúðinni að viðhafa framsetningu á viðskiptakjörum þar sem tekið var fram að vörur félagsins væru „allt að 40% ódýrari“ og að um takmarkað magn væri að ræða, þegar engar upplýsingar voru um hveru mikið magn væri í boði. Þetta kemur fram í ákvörðun Neytendastofu sem birt var í gær.
Ákvörðunin nær til félagsins 55 Mayfair Online ltd, rekstraraðila Nýju vínbúðarinnar. Hafði Neytendastofu borist ábending um að á vefsíðu félagsins væri fullyrt væri að vörur þess væru „allt að 40% ódýrari“ án þess að tekið væri fram við hvað væri átt.
Var verð á heimasíðunni einnig iðulega sett þannig fram að birt var yfirstrikað verð og svo lægra verð við hliðina á. Segir í ákvörðun Neytendastofu að með þessari framsetningu mætti ætla að Nýja vínbúðin væri að selja vörur á lækkuðu verði.
Í svörum Nýju vínbúðarinnar var tekið fram að yfirstrikaða verðið væri verð Vínbúðarinnar og því ekki um afsláttarverð að ræða heldur samanburður við samkeppnisaðila. Þá segir varðandi takmarkað magn að það sé fyrst og fremst sett fram um ýmsar vörur sem framleiddar séu í takmörkuðu upplagi.
Niðurstaða Neytendastofu er að framsetning verðupplýsinga hjá Nýju vínbúðinni væri til þess fallin að telja neytendum trú um að þeir væru að kaupa vörur á lægra verði en þær hefðu áður verið á hjá Nýju vínbúðinni.
Með þessari framsetningu og með því að tilgreina ekki hvað sé átt við með fullyrðingunni „allt að 40% ódýrara“ hafi félagið veitt villandi upplýsingar um verð og ekki hafi verið færðar sönnur á fullyrðinguna. Þá hafi Nýja vínbúðin brotið gegn ákvæðum laga með því að auglýsa takmarkaða magn án þess að tiltaka hvaða vörur sé um að ræða eða hversu mikið magn sé í boði. Var Nýju vínbúðinni því bannað að viðhafa þessa viðskiptahætti.