Vilborg Anna Garðarsdóttir hefur verið ráðin forstöðukona framlegðar og tekjustýringar Coca-Cola á Íslandi. Vilborg kemur til Coca-Cola á Íslandi frá UN Women á Íslandi þar sem hún starfaði sem fjármálastjóri.
Áður en hún starfaði hjá UN Women var hún framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Sixt í tæp tíu ár.
Vilborg Anna er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst og hefur unnið lengst af í fjármálum síðustu 15 ár. Hún hefur enn fremur góða reynslu af framlegðar- og tekjustýringu, að því er segir í tilkynningu.
Gestur Steinþórsson hefur verið ráðinn markaðsstjóri áfengra drykkja hjá fyrirtækinu. Hlutverk hans verður að leiða markaðssetningu og vöruþróun áfengra vörumerkja félagsins. Hluti af þeim vörumerkjum eru Víking, Thule og Einstök bjórvörumerki en einnig létt og sterk vín eins og Reyka vodka, Faustino og Las Moras léttvín, William Grants whiskey og margt fleira.
Gestur hefur starfað mikið við markaðsmál og rekstur undanfarinn áratug og var áður vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni og ÍSAM. Hann var einnig meðeigandi og skipuleggjandi The Color Run árið 2015, sem var fyrsta árið sem sá viðburður var haldinn á Íslandi. Gestur stofnaði og var framkvæmdarstjóri EastWest Iceland, sem er ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi, og hefur komið að rekstri auglýsingastofa, sem dæmi Silent (nú Sahara) og Vert Markaðsstofu.
Sigurpáll Torfason hefur verið ráðinn sem Sr Mgr, Engineering hjá Coca-Cola á Íslandi. Sigurpáll hefur leitt tæknisvið fyrirtækisins á Akureyri með góðum árangri frá 2020 og mun nú taka við tæknideildum bæði í Reykjavík og á Akureyri. Hann mun jafnframt hafa yfirumsjón með framkvæmdaverkefnum sem tilheyra vörustjórnunarsviði fyrirtækisins
Sigurpáll hefur víðtæka reynslu af sjálfvirkni og hefur starfað á því sviði um árabil. Hann hefur m.a. starfað við framleiðslu á búnaði fyrir Skagann 3X og uppsetningar og kennslu á búnaði fyrir Völku ehf.