Viðskiptavinir indó, sparisjóðsins sem formlega tók til starfa 30. janúar sl., eru orðnir sextán þúsund og fjölgar ört að því er fram kom í máli Hauks Skúlasonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins á morgunverðarfundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins og mbl.is, í gærmorgun.
Til dæmis hafi viðskiptavinum, sem Haukur kallar indóa, fjölgað um eitt þúsund síðan á síðasta sunnudag. „Við tölum um indóa því við erum að æfa okkur í að horfa ekki á viðskiptavini sem einsleitan hóp,“ útskýrir Haukur.
Sparisjóðurinn leggur áherslu á litla yfirbyggingu og lágan kostnað sem sé forsendan fyrir því að geta boðið betri kjör en aðrir á markaðinum. Vonast Haukur eftir því að sem flestir leggi launin sín inn hjá indó að hluta eða öllu leyti. Þó vill hann ekki að fólk geymi meira en sem nemur einum mánaðarlaunum á tékkareikningum. Fyrirtækið muni benda fólki á ef of miklir fjármunir séu þar inni og vísa því á sparnaðarreikning indó í staðinn. Þar verði vextir hagstæðari. Sá reikningur verður kynntur til sögunnar í vor að sögn Hauks.
„Ef viðskiptavini er leiðbeint um hvar hann á að geyma peningana verður hann ánægður og mælir með okkur. Við viljum stuðla að fjárhagslegu heilbrigði og ábyrgri hegðun. Þá verður fólk ánægt og sömuleiðis verðmætara sem viðskiptavinir. Sumir verða ekki alltaf arðbærir viðskiptavinir, en ef þeir eru glaðir þá leysist allt hitt.“
Ýmislegt fleira er á döfinni hjá indó eins og útlán til einstaklinga, einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja í lok þessa árs.
Haukur segir að innlán séu ær og kýr indó og fyrirtækið vilji sinna viðskiptavinum sínum vel og ekki fara sömu leið og bankarnir með sitt breiða vöruúrval. Mikilvægt sé að missa ekki fókusinn og sýna skynsemi og sanngirni. „Ef við höldum þessu ekki á skynsamlegum nótum kemur einhver annar og býður betur.“
Tekjur fær félagið af vaxtamun og frá Visa fyrir notkun á kortum.
„Við erum stundum spurð hvernig þetta sé hægt þar sem tekjur okkar eru svo litlar í samanburði við banka. Þá segjum við að kostnaður okkar sé bara svo miklu miklu minni. Starfsmenn eru sextán í litlu leiguhúsnæði. Við bjóðum engum í laxveiði eða sendum fólki konfektkassa. Allt verður lagt í að byggja upp fyrirtækið. Við einbeitum okkur að venjulegu fólki sem á ekki að þurfa að borga fyrir að nota peningana sína.“
Spurður hvort sparisjóðir séu ekki barn síns tíma segist Haukur vera ofboðslega stoltur af því að indó sé sparisjóður. Það minni á ákveðna hugsjón sem snerist um að vera til staðar á sínu markaðssvæði, sem í tilfelli indó er Ísland. „Það er hagkvæmara að vera sparisjóður en banki. Sparisjóðir mega ekki stækka of mikið. Það er bannað samkvæmt lögum og við völdum að mega það ekki.“
Annar kostur við að vera sparisjóður er að sögn Hauks að í lögum um fjármálafyrirtæki segir að sparisjóðir eigi að ráðstafa 5% af hagnaði í samfélagsleg verkefni. „Samfélagið stuðlar að velgengni okkar og á að njóta þess,“ segir hann.
Hann segir að styrkir verði ekki afhentir með lúðrablæstri og risastórum ávísunum heldur muni indóar kjósa styrkþegana.
Haukur tekur jafnan þátt og aðrir starfsmenn í að svara í símann í þjónustuveri félagsins. Aðspurður segir hann að það sé gott að tala við indóa. Þeir tali mannamál.
Spurður um hverjir séu arðbærustu viðskiptavinirnir segir Haukur að það séu bæði þeir sem eru með háa innstæðu og einnig þeir sem eru með lága innstæðu en nota kortið mjög mikið. „Ég vil eyðsluklóna að vissu leyti en ég vil líka viðskiptavin sem er ánægður.“
Spurður að lokum um markaðsmálin segir Haukur að í markaðsefni sé hamrað á að indó sé ekki banki, enda megi hann ekki kalla sig það. „Ég veit ekki hvort þið sjáið húmorinn í því en við tökum okkur ekki alltof hátíðlega. En það þýðir ekki að við tökum það sem við gerum ekki alvarlega,“ sagði Haukur að lokum á morgunverðarfundinum.