Fyrirtækið 66°Norður hefur ákveðið lokað verslun sinni á Strikinu í Kaupmannahöfn, höfuðborg Danmerkur. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að starfsemi 66°Norður í Danmörku hafi tekið breytingum til að mæta aukinni eftirspurn á markaði.
Verslunin á Strikinu var opnuð árið 2015.
„Við ákváðum að endurnýja ekki leigusamninginn á Strikinu sem lýkur nú um mánaðamótin en húsnæðið var orðið of lítið og óhagkvæmt fyrir reksturinn í núverandi mynd. Við val á verslun þá skiptir höfuðmáli að sýna vörumerkið í réttu ljósi og bjóða upp á heildstætt vöruúrval. Við höfðum þennan lærdóm í huga við val á verslunarhúsnæði í London, þar bjóðum við upp á breiðari vörulínu ásamt því að gefa vörumerkinu vægi ásamt 100 ára íslenskri arfleifð,“ er haft eftir Aldísi Arnardóttur, yfirmanni verslunarsviðs 66°Norður, í tilkynningunni.
Í tilkynningunni kemur fram að nýverið hafi 66°Norður opnað verslun, eða svokallaða „shop-in-shop“, í dönsku versluninni Illum. Aðalverslun 66°Norður er þó enn á Sværtegade í Kaupmannahöfn.
„Aðalverslun okkar á Sværtegade gengur mjög vel og jókst salan þar um 58% á milli ára. Enn fremur gengur salan í Illum mjög vel og við teljum að með þessum tveimur verslunum í Kaupmannahöfn séum við að ná vel til danskra viðskiptavina og einnig til ferðamanna sem versla mikið í Illum,“ er haft eftir Aldísi