Áætlað skattaspor útgerðarfélagsins Brims nam á síðasta ári um 10,5 milljörðum króna og hefur hækkað um tæpa 4,5 milljarða króna frá árinu 2016.
Í ársuppgjöri Brims, sem kynnt var fyrir helgi, er fjallað um skattaspor félagsins á sjö ára tímabili, frá árinu 2016 til 2022. Heilt yfir nemur skattaspor félagsins á tímabilinu um 52 milljörðum króna, eða tæpum 7,5 milljörðum króna að meðaltali á ári.
Meginþorri skattasporsins felst í innheimtum sköttum vegna starfsmanna (staðgreiðslu), eða um 23 milljarðar króna. Aðrir greiddir skattar vegna starfsfólks nema um 11,4 milljörðum króna á tímabilinu sem um ræðir. Þá hefur félagið greitt um 7,6 milljarða króna í tekjuskatt á tímabilinu og tæpa 5,6 milljarða króna í veiðigjald.
Árið 2017, þegar félagið hét enn HB Grandi, lækkaði skattaspor félagsins um tæpar 800 milljónir króna á milli ára. Árið 2018 keypti Brim, undir forystu Guðmundar Kristjánssonar, rúmlega þriðjungshlut í félaginu. Ári síðar var nafni HB Granda breytt í Brim. Árið 2019 hækkaði skattasporið um tæpa tvo milljarða króna á milli ára og hefur hækkað á hverju ári síðan þá.