Á næstu misserum mun Pósturinn loka pósthúsum sínum í Mjódd og í Ólafsvík, en í staðinn verður meðal annars lögð áhersla á póstbox. Einnig á að loka póstafgreiðslum sex stöðum á landsbyggðinni og kemur í staðinn „samspil póstboxaþjónustu, póstbílaþjónustu, bréfberaþjónustu og landpóstaþjónustu.“ Um er að ræða afgreiðslur í Hveragerði, Bolungarvík, Súðavík, Grenivík, Laugum og Reykjahlíð.
Í tilkynningu frá póstinum segir að í staðinn fyrir lokun pósthúsanna verði lögð meiri áherslu á „annars konar þjónustu“ og er sérstaklega vísað til póstboxa þar sem einnig verði hægt að póstleggja pakka.
Varðandi póstafgreiðslurnar segir að þrátt fyrir breytinguna muni Pósturinn ná að sinna svæðunum vel og „fullkomlega í samræmi við lög og reglugerðir sem um starfsemina gilda.“
Vísað er til þess að stafræn umbreyting kalli á nýjar nálganir og Pósturinn verði að bregðast við því. „Um leið ber okkur beinlínis skylda til að leita hagkvæmra leiða í rekstrinum og því eru breytingar sem þessar óhjákvæmilegar,“ er haft eftir Þórhildi Ólöfu Helgadóttur, forstjóra Póstsins, í tilkynningunni.
„Markmið okkar er ávallt að fjölga afhendingarstöðum en það er okkur mikið kappsmál að bæta við póstboxum í helstu þéttbýliskjarna á landsbyggðinni. Það skiptir máli að bjóða upp á þétt dreifinet móttöku og afhendingastaða til að vera sem næst viðskiptavinum okkar,“ er jafnframt haft eftir henni.