Segja Harald hafa verið rekinn

Haraldur Þorleifsson.
Haraldur Þorleifsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haraldur Þorleifsson, frumkvöðull og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, var einn margra sem sagt var upp störfum á Twitter um helgina.

Haraldur seldi Ueno til Twitter snemma árs 2021 og hefur starfað hjá samfélagsmiðlarisanum síðan.

Greint var frá því á mbl.is í gær að Haraldur hefði breytt upplýsingum um sig á Twitter-reikningi sínum, auk þess sem hann tísti þar því sem líktist kveðju og leit yfir farinn veg.

Ein stærsta uppsagnahrinan

Bandaríska vefritið Information, sem hefur aðsetur í San Francisco og fjallar um tækniiðnaðinn vestanhafs, greinir nú frá því að Haraldi hafi verið sagt upp.

Tekið er fram í umfjöllun miðilsins að um sé að ræða eina stærstu uppsagnahrinuna frá því auðkýfingurinn Elon Musk tók við stjórnartaumum fyrirtækisins í október.

Tugir verkfræðinga, verkefnastjóra, gagnasérfræðinga og framkvæmdastjóra misstu þannig störf sín um helgina, að því er ritið hefur eftir sínum heimildarmönnum.

Seldi líka til Twitter árið 2021

Hollendingurinn Martijn de Kuijper, sem einnig seldi fyrirtækið sitt, Revue, til Twitter árið 2021, missti starfið sitt sömuleiðis um helgina.

Upplýsti hann í gær að hann hefði misst aðgang að tölvupóstinum sínum.

„Vakna og sé að ég hef verið læstur úti frá tölvupóstinum mínum. Lítur út fyrir að ég hafi verið látinn fara. Nú er Revue-ferðalagið mitt í alvöru á enda,“ tísti hann.

„Þar til einhver sparkar mér út“

Í umfjöllun Information segir að Haraldur hafi gegnt starfi yfirhönnuðar hjá Twitter, áður en uppsagnirnar dundu yfir.

Áður hefur komið fram að Haraldi sé ekki vel við forstjórann fyrirferðarmikla. Hann kvaðst þó í maí á síðasta ári ætla að halda áfram hjá Twitter.

„Þar til einhver sparkar mér út,“ bætti hann þá við.

Elon Musk, forstjóri Twitter.
Elon Musk, forstjóri Twitter. AFP/Jim Watson

Tekjurnar dregist mikið saman

Uppsagnirnar eru sagðar benda til þess að Musk hafi mistekist að lagfæra mikinn tekjumissi, en snemma i janúar höfðu tekjur fyrirtækisins dregist saman um 40% á ársgrundvelli.

Ekki bætir úr skák að Twitter þarf að standa skil á 1,2 milljörðum bandaríkjadala í vaxtagreiðslur einar og sér, vegna láns sem Musk sló til að kaupa fyrirtækið fyrir 44 milljarða dala.

Engin eftirsjá

„Tvö ár. Lærði ýmsa hluti. Kynnt­ist frá­bær­um nýj­um vin­um. Vann gott starf. Hló mikið. Grét aðeins. Eng­in eft­ir­sjá,“ tísti Haraldur í gær.

Hann tók þó ekki ber­um orðum fram að hann væri hætt­ur.

Tjáknið í tísti hans gaf það samt sem áður til kynna, þar sem fyrrverandi starfs­fólk Twitter hef­ur áður notað þetta sama tjákn til að kveðja, rétt eins og de Kuijper gerði.

Stutt við þá sem minna mega sín

Haraldur hefur undanfarin ár látið sterklega að sér kveða í íslensku samfélagi.

Hef­ur hann meðal annars stutt við þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu, ásamt því að rampa upp Ísland og bæta þannig aðgengi fyr­ir fatlaða.

Var hann enda valinn manneskja ársins af lesendum Smartlands á síðasta ári, og ræddi við blaðamann af því tilefni.

Hjálpað fólki í gegnum erfiðar aðstæður

Athygli hefur einnig vakið að Haraldur hefur gefið fólki sem á erfitt pen­inga­gjaf­ir.

Þegar hann var spurður að því hvað hann hefði látið mikið fé af hendi rakna kvaðst hann ekki vilja gefa það upp.

„Það er ákveðið frelsi sem fylg­ir pen­ing­um. Það eru oft ekki endi­lega háar upp­hæðir sem geta hjálpað fólki í gegn­um erfiðar aðstæður. Þá hef ég reynt að bregðast við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK