Þeir starfsmenn sem eftir eru hjá samfélagsmiðlarisanum Twitter, eftir umfangsmiklar uppsagnir helgarinnar, munu fá hlutabréf að launum í samræmi við frammistöðu sína.
Frá þessu greindi Elon Musk, forstjóri Twitter, í tölvupósti til starfsmanna í gær. Vefmiðillinn Verge hefur skeytið undir höndum.
„Í liðinni viku þá kláruðum við erfiða skipulagsyfirhalningu sem miðaði að því að bæta skilvirkni til framtíðar, með því að notast við eins mikla endurgjöf og við gátum fengið frá öllu fyrirtækinu,“ skrifaði Musk.
„Þeir sem eru eftir eru mikils metnir af þeim sem eru í kringum þá,“ bætti hann við.
Um er að ræða fyrstu samskipti forstjórans við starfsmennina eftir uppsagnahrinuna. Á sama tíma hefur Musk gert starfsfólki erfitt fyrir að eiga samskipti sín á milli.
Innri tengiliðaskrá fyrirtækisins hefur þannig legið niðri frá því hann tók við starfi forstjóra.
Í síðustu viku lokaði Musk svo fyrir möguleikann á því að starfsmenn gætu notast við samskiptaforritið Slack.
Einnig hefur verið slökkt á Google-spjalli fyrir tölvupóstsamskipti innan vinnunnar og telja starfsmenn að það hafi verið gert til að hindra innri samskipti starfsmanna á meðan uppsagnirnar dynja á þeim.
Heimildarmenn Verge telja að fjöldi starfsmanna Twitter sé nú kominn vel undir 2.000. Í samanburði störfuðu um 7.500 manns hjá fyrirtækinu þegar Musk tók við því.
Haraldur Þorleifsson, frumkvöðull og stofnandi Ueno, var einn þeirra fjölmörgu sem sagt var upp um helgina.
Eins og greint var frá í gær gæti brottrekstur hans reynst Twitter dýrkeyptur.