Sýn hf. hefur gert samning um kaup á öllu hlutafé í Eignarhaldfélaginu Njálu ehf., en það er móðurfélag Já hf. Samhliða þessu mun Já selja rekstur Gallup á Íslandi til þriðja aðila, en Gallup hefur m.a. séð um mælingar á lestri vefmiðla.
Í tilkynningu frá Sýn er haft eftir Yngva Halldórssyni, forstjóra félagsins, að með kaupunum vilji félagið byggja ofan á þá styrkleika sem Já hafi. Segir hann mikla möguleika í að auka þjónustuframboð þess. „Já er rótgróið vörumerki og ja.is er einn af tíu mest heimsóttu vefjum Íslands. Þangað leita einstaklingar til að finna upplýsingar um fólk, fyrirtæki og vörur. Miklir möguleikar eru í auknu þjónustuframboði byggt á öflugum kerfum félagsins og sterkum mannauð sem við erum mjög spennt að fá til liðs við okkur.“
Samkvæmt ársreikningi ársins 2021 var bókfært virði Já hf. í bókum Eignarhaldsfélagsins Njálu 953 milljónir. Tap félagsins það ár var 45 milljónir, en EBITDA-hagnaður þess var þó 203 milljónir.
Eigendur félagsins eru Auður I fagfjárfestingasjóður með 80,7% hlut, SOKO ehf með 14,3% hlut og Volta ehf með 5% hlut. Rúmlega 20 fagfjárfestar koma að Auði, þar af nokkrir af stærstu lífeyrissjóðum landsins. SOKO er í eigu Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, fyrrverandi forstjóra Já og núverandi framkvæmdastjóra Lyfju. Volta er í eigu Kjartans Arnar Ólafssonar.