Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir að tæplega 30% hótelrýma í höfuðborginni hafi verið lokað í yfirstandandi verkfalli hótelstarfsmanna hjá Eflingu og að staða mála sé alvarleg.
Starfsfólk Íslandshótela, Fosshótela, Berjaya-hótela og Reykjavík Edition hefur lagt niður störf en fyrstu verkföll hótelstarfsmanna hófust þann 7. febrúar.
„Það er búið að loka tæplega 30% hótelrýma í Reykjavík, sem hefur mögulega afleiðingar inn í sumarið, fólk sér að það er verkfall hér,“ segir Lilja í samtali við mbl.is.
„Við erum komin á 21. dag í verkfalli. Þetta er býsna langur tími fyrir þau hótel og gististaði sem verða fyrir áhrifum þess. Ferðaþjónustan kemur inn með mestar gjaldeyristekjur í þjóðarbúið og ef þær gjaldeyristekjur minnka, þá veikir það gjaldmiðilinn sem ýtir undir frekari verðbólgu,“ segir Lilja.
Verðbólga er komin yfir 10% og hefur ekki mælst hærri síðan í september 2009.
„Þessi staða er því ekki hagfelld fyrir þjóðarbúið í heild sinni. Aðalverkefni stjórnvalda er að ná tökum á verðbólgunni og við eigum öll að einblína á það. Við vöktum þessa stöðu, ekki einungis daglega heldur oft á dag. Hér eru daglegir fundir sem við eigum með Ferðamálastofu og öðrum lykilaðilum í ferðaþjónustu. Bæði til þess að bregðast við og til þess að sjá nokkra daga fram í tímann. Það höfum við gert í allan þennan tíma sem verkfallið hefur staðið yfir,“ segir Lilja.
Ferðamálastofa hefur sett á laggirnar sérstaka vefsíðu til þess að miðla upplýsingum til ferðamanna á leið til landsins auk neyðarsíma sem hefur sinnt hátt í 1.500 símtölum en á bakvið það eru um 4.000 ferðamenn að sögn Lilju. Þá hafi ferðaþjónustan starfað þétt saman til þess að takmarka yfirvofandi tjón.
„Ferðaþjónustan hefur starfað þétt saman og flutt gesti inn í laus rými inni á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Það segir sig sjálft að þetta er ekki það frí sem viðkomandi aðilar hefðu óskað sér. Ráðuneytið mitt hefur, í samráði við Ferðamálastofu og hagaðila í ferðaþjónustu, gripið til aðgerða innan þess ramma sem við getum gert.“
Spurð um tap ríkissjóðs vegna verkfallanna segir Lilja: „Tekjumissirinn er býsna hár. Þetta er til þess fallið að veikja gjaldeyristekjur inn í landið.“ Bindur hún vonir við að kjarasamningar náist eins fljótt og auðið er.
Uppfært: Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að 44% hótelrýma hafi lokað í verkfallinu. Rétt hlutfall er tæp 30%.