200 þúsund flugu með Icelandair í febrúar

Icelandair náði nokkru flugi í febrúar.
Icelandair náði nokkru flugi í febrúar. Ljósmynd/Icelandair

Heildarfjöldi farþega Icelandair var um 200 þúsund í nýliðnum febrúarmánuði, samanborið við 125 þúsund í febrúar í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. Þar segir einnig að sætaframboð í febrúar hafi verið 82% af framboðinu í febrúar 2019.

Farþegar í millilandaflugi í febrúar voru 181 þúsund, og er það 66% fleiri farþegar en voru í febrúar 2022, en þá flugu 109 þúsund millilandafarþegar með félaginu. Í tilkynningunni kemur fram að fjöldi farþega til Íslands hafi verið 95 þúsund og frá Íslandi 45 þúsund. Þá voru tengifarþegar um 40 þúsund og þrefaldaðist fjöldi þeirra á milli ára.

Í tilkynningunni segir að stundvísi í millilandaflugi hafi verið 74% í mánuðinum, en slæmt veður hafði nokkur áhrif á stundvísi og farþegafjölda en framleiðsla í mánuðinum var 5% minni vegna aflýsinga. Sætanýting í millilandaflugi var 76,4% og jókst mikið eða um 10,2 prósentustig á milli ára.

Fraktflutningar jukust um 36% milli ára

Fjöldi farþega í innanlandsflugi var um 19 þúsund, samanborið við 16 þúsund í febrúar í fyrra. Stundvísi var 70%. Sætanýting í innanlandsflugi var 78,9%. Nokkrar raskanir urðu á innanlandsflugi í febrúar og höfðu þær áhrif á stundvísi og farþegafjölda.

Seldir blokktímar í leiguflugi voru 8% færri en í febrúar í fyrra. Fraktflutningar jukust um 36% miðað við sama tíma í fyrra. Aukningin í fraktflutningum skýrist fyrst og fremst af því að félagið bætti breiðþotu við fraktflotann sem eykur fraktrými.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í tilkynningunni ánægjulegt að sjá áframhaldandi fjölgun farþega. „Eftirspurnin er sterk sem endurspeglast í farþegafjölda, sætanýtingu og heildartekjumyndun í mánuðinum. Áframhaldandi vöxtur í fraktflutningum skýrist af því að í lok síðasta árs tókum við í notkun Boeing 767 fraktflugvél og jukum flutningsgetuna þannig umtalsvert. Viðskiptavinir hafa tekið þessu aukna framboði vel og það er ljóst að mikil tækifæri liggja í því að nýta Keflavíkurflugvöll sem tengimiðstöð fyrir fraktflutninga,“ segir Bogi Nils.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK