Heildarfjöldi farþega Icelandair var um 200 þúsund í nýliðnum febrúarmánuði, samanborið við 125 þúsund í febrúar í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. Þar segir einnig að sætaframboð í febrúar hafi verið 82% af framboðinu í febrúar 2019.
Farþegar í millilandaflugi í febrúar voru 181 þúsund, og er það 66% fleiri farþegar en voru í febrúar 2022, en þá flugu 109 þúsund millilandafarþegar með félaginu. Í tilkynningunni kemur fram að fjöldi farþega til Íslands hafi verið 95 þúsund og frá Íslandi 45 þúsund. Þá voru tengifarþegar um 40 þúsund og þrefaldaðist fjöldi þeirra á milli ára.
Í tilkynningunni segir að stundvísi í millilandaflugi hafi verið 74% í mánuðinum, en slæmt veður hafði nokkur áhrif á stundvísi og farþegafjölda en framleiðsla í mánuðinum var 5% minni vegna aflýsinga. Sætanýting í millilandaflugi var 76,4% og jókst mikið eða um 10,2 prósentustig á milli ára.
Fjöldi farþega í innanlandsflugi var um 19 þúsund, samanborið við 16 þúsund í febrúar í fyrra. Stundvísi var 70%. Sætanýting í innanlandsflugi var 78,9%. Nokkrar raskanir urðu á innanlandsflugi í febrúar og höfðu þær áhrif á stundvísi og farþegafjölda.
Seldir blokktímar í leiguflugi voru 8% færri en í febrúar í fyrra. Fraktflutningar jukust um 36% miðað við sama tíma í fyrra. Aukningin í fraktflutningum skýrist fyrst og fremst af því að félagið bætti breiðþotu við fraktflotann sem eykur fraktrými.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í tilkynningunni ánægjulegt að sjá áframhaldandi fjölgun farþega. „Eftirspurnin er sterk sem endurspeglast í farþegafjölda, sætanýtingu og heildartekjumyndun í mánuðinum. Áframhaldandi vöxtur í fraktflutningum skýrist af því að í lok síðasta árs tókum við í notkun Boeing 767 fraktflugvél og jukum flutningsgetuna þannig umtalsvert. Viðskiptavinir hafa tekið þessu aukna framboði vel og það er ljóst að mikil tækifæri liggja í því að nýta Keflavíkurflugvöll sem tengimiðstöð fyrir fraktflutninga,“ segir Bogi Nils.