Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) varði tæpum 8,3 milljónum króna í málarekstur gegn tveimur fyrirtækjum, Bjórlandi og Sante, sem hófu sölu á áfengi í gegnum netverslanir á árunum 2020 og 2021.
Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Hildi Sverrisdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um málskostnað ÁTVR vegna mála gegn vefverslunum sem selja áfengi.
Bjórland hóf að selja bjór í gegnum innlenda netverslun sumarið 2020 en Sante hóf vorið 2021 að selja ýmiss konar áfengi í gegnum erlenda netverslun. Rétt er að geta þess að íslenskir neytendur hafa um árabil átt þess kost að kaupa áfengi í gegnum erlendar netverslanir. ÁTVR kærði bæði fyrirtækin til lögreglu sem aðhafðist ekki vegna málsins. Ríkisfyrirtækið höfðaði þá mál haustið 2021 þar sem gerð var krafa um að Bjórlandi og Sante yrði gert að láta af smásölu áfengis í vefverslun og að viðurkennd yrði bótaskylda vegna tjóns sem ÁTVR taldi sig hafa orðið fyrir vegna netverslananna. Héraðsdómur hafnaði þeim málatilbúnaði og taldi að ÁTVR hefði ekki lögbundna hagsmuni, heldur væri það hlutverk fjármálaráðherra að ákveða hvernig áfengisstefnunni yrði framfylgt. ÁTVR áfrýjaði málinu til Landsréttar, sem enn hefur ekki tekið málið fyrir.
Þá kemur einnig fram í svari ráðherra að ÁTVR hafi verið gert að greiða Bjórlandi tæpa eina milljón króna í málskostnað en Arnari Sigurðssyni (eiganda Sante), Sante ehf. og Santewines SAS, sameiginlega tæplega 1,7 milljón króna.