Flugfélagið Play flutti ríflega 63 þúsund farþega í síðasta mánuði og var sætanýtingin um 77% og stundvísin um 84%. Í tilkynningu félagsins kemur fram að 31% af farþegum hafi ferðast frá Íslandi, 37% til Íslands og 32% voru tengifarþegar.
Í janúar og febrúar 2023 jafngiltu tekjur af seldum sætum tveimur sölumánuðunum í fyrra. Meðalhliðartekjur hafa hækkað um 26% frá því í byrjun febrúar.
Þá halda einingatekjur félagsins áfram að hækka og eru þær orðnar hærri fyrir alla mánuði ársins miðað við á sama tíma í fyrra. Á sama tíma hefur framboð félagsins aukist um 200% fyrir 2023. Meðalfargjald fyrir árið 2023 hefur hækkað um 19% frá síðasta ári og mun hækka frekar eftir því sem nær dregur sumrinu, að því er fram kemur í tilkynningunni.
„Við erum stolt af því að að febrúar sé annar metsölumánuðurinn í röð, bókunarstaðan fyrir komandi mánuði sé sterk og tekjuvöxtur mikill. Það sama á við um eftirspurn til og frá Íslandi. Þá halda einingatekjurnar áfram að hækka, jafnvel þó að framboð hafi vaxið mikið en það er ótvíræður vitnisburður um að vörumerkið okkar hafi styrkst og til marks um góðan árangur í sölu- og markaðsmálum,“ er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play í tilkynningunni.