Stundum vantar stuðning í orði og verki

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis.
Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis. mbl.is/Golli

„Ég myndi gjarnan vilja heyra meira frá þeim, svo framarlega sem þeir geta tekið undir með okkur. Þá ekki bara í lífeyrissjóðum heldur einnig í öðrum hluthöfum.“

Þetta segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis.

Launa­kjör for­stjóra skráðra fé­laga hér á landi hafa verið nokkuð í umræðunni en öll eiga þau sam­eig­in­legt að vera að nokkr­um eða stór­um hluta í eigu ís­lenskra líf­eyr­is­sjóða eins og Árni hefur bent á.

En hvað telur Árni eðlilegt að miða við að launakjör forstjóra íslenskra stórfyrirtækja séu?

„Ég hef alltaf óttast það að nefna tölu í því sambandi. Við hjá Gildi höfum sem dæmi ekki sett okkur upp á móti því að laun hjá forstjóra í stóru fyrirtæki séu kannski uppá fjórar til fimm milljónir króna á mánuði eins og raunin er í einhverjum fyrirtækjum. Það er eitthvað sem er alveg hægt að sætta sig við.

Ef viðkomandi nær sérstaklega góðum árangri sem má rekja til einhvers sem hann hefur stuðlað að þá sjáum við hjá Gildi í sjálfu sér ekkert að því að borga einhvers konar kaupauka. Við höfum verið að sjá til dæmis þriggja mánaða laun aukalega ef menn ná mjög góðum árangri. Það er alla vega eitthvað sem við höfum ekki sett okkur upp á móti,“ segir Árni.

Sérstaða alþjóðlegra stórfyrirtækja

Hann segir aðspurður að samanburður við launakjör forstjóra erlendis eigi ekki endilega alltaf við.

„Við erum að horfa á Ísland og þurfum ekki að taka allt upp frá útlöndum. Mér finnst allt of oft verið að vísa í samanburð við útlönd og laun hjá erlendum forstjórum og svo framvegis og að við séum í einhverri samkeppni við það. Ég held að það sé einfaldlega ekki rétt.

Við erum hins vegar með félög á borð við Marel og Össur sem starfa á allt öðrum markaði. Við teljum ekki óeðlilegt að í þeim félögum sé litið til einhvers samanburðar við sambærileg félög sem eru að starfa á sama alþjóðlega markaðnum.

Alíslensk félög geta að mínu mati ekki verið að vísa í eitthvað sem gerist í risastórum félögum í allt öðrum löndum. Ég hef alla vega litið þannig á en við höfum haft ákveðinn skilning á sérstöðu þeirra fyrirtækja sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum.“

Gera ekki kröfu á að allir séu sammála

Gætu krosstengsl átt þátt í því að oft hafi gengið illa að ná fram breytingum í þá átt sem þið hafið talað fyrir? Nú eru stjórnarmenn þessara félaga oft hæstráðendur í öðrum félögum.

„Ég veit ekki alveg hvort ég geti tekið undir það en auðvitað hefur hver og einn sjóður sína hluthafastefnu og þær eru ekki allar eins og menn eru með mismunandi áherslur. Ég er ekki að segja að allir eigi að vera sammála okkur en ég veit hins vegar að í mörgum tilvikum eru margir hluthafar og þar á meðal margir lífeyrissjóðir sammála ýmsu sem við setjum fram.

Ég veit að þessir aðilar greiða oft atkvæði með okkar tillögum en mér finnst stundum vanta stuðning í orði og verki þannig að það sé sýnilegt að þeir séu til dæmis sammála tillögum varðandi starfskjarastefnur og fleira.

Við höfum oft fengið brautargengi með okkar málflutning og okkar tillögum en það hefur líka oft gerst að okkar tillögur ná ekki fram að ganga enda gerum við okkur grein fyrir því að það eru ekki endilega allir alltaf sammála okkur og við erum ekki að gera kröfu til þess.

Við erum bara að halda á lofti okkar stefnu og hvernig við viljum sjá hlutina,“ segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK