Elísabet Austmann hefur verið ráðin forstöðumaður nýsköpunar- og markaðsmála hjá Högum. Í tilkynningu frá Högum kemur fram að til viðbótar við störf tengdum nýsköpunar- og markaðsmálum muni Elísabet einnig bera ábyrgð á vörumerkja- og samskiptamálum Haga á breiðum grunni.
Hún mun hefja störf fyrir Haga í apríl næstkomandi.
Elísabet er alþjóðamarkaðsfræðingur með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri markaðssviðs hjá Bioeffect þar sem hún leiddi m.a. markaðs- og vörumerkjauppbyggingu á húðvörulínu fyrirtækisins á innlendum og erlendum mörkuðum. Þar áður starfaði Elísabet hjá Glitni og Ölgerðinni.
„Það er fengur af því að fá Elísabetu til liðs við okkur hjá Högum. Víðtæk reynsla hennar á sviði vörumerkja-, markaðs- og kynningarmála mun nýtast okkur til að efla samtal við viðskiptavini og aðra hagaðila og stuðla að því að þjónustuframboð félaga samstæðunnar uppfylli þarfir neytenda á hverjum tíma sem best. Við bjóðum hana sérstaklega velkomna í teymið,“ er haft eftir Finni Oddssyni, forstjóra Haga, í tilkynningunni.