Samtök iðnaðarins kalla eftir svokallaðri „grænni iðnbyltingu“ og skora á stjórnvöld til að ryðja betur veg fyrir framkvæmdir í þágu orkuskipta. Þetta kemur fram í ályktun Iðnþings 2023 sem var samþykkt á aðalfundi SI í morgun.
Þar segir að stærstu vaxtartækifærin liggi í iðnaði, þar sem hann skapi um 44% útflutningstekna á landinu. Iðnþing telur að hagvöxtur gæti orðið enn meiri en spár gefa í skyn ef rétt er að málum staðið hvað iðnað varðar.
Í ályktuninni er sagt að endurskoða þurfi aðgerðir í loftslagsmálum og forgangsraða ríkisfjármagni í styrki og hvata til orkuskipta og innleiðingar á nýrri tækni svo að hægt sé að ná markmiðum stjórnvalda og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Samtökin segja að skortur á raforku hafi þegar leitt til tapaðra tækifæra í iðnaði og atvinnuuppbyggingu um land allt á síðustu árum.
„Rjúfa þarf áralanga kyrrstöðu í orkuöflun til að mæta raforkuþörf vegna orkuskipta á Íslandi og nýrra tækifæra í iðnaði.“
Þar að auki kalla samtökin eftir auknu samstarfi við stjórnvöld og skólasamfélagið um að vinna að því að fleiri útskrifist úr svonefndum STEM-greinum. Einnig er skorað á stjórnvöld um að auka framlag til þessara greina. SI vilja auk þess að götur erlenda sérfræðinga til íslands séu greiddar.
Að auki fagna samtökin yfirlýsingu innviðarráðherra um uppbyggingu 35 þúsund húsa í Reykjavíkurborg á næsta áratug en hvetja önnur bæjarfélög til að taka sér svipuð verkefni fyrir hendur.