Tekjur Icelandair ríflega tvöfölduðust á milli ára.
Á þessu ári munu verða tæplega 3.700 stöðugildi hjá félaginu að meðaltali fyrir árið, en yfir háannatímann munu um 5.000 starfsmenn starfa hjá félaginu.
Lögð hefur verið áhersla á aukna nýtingu á Saga Class farrýminu, og á þessu ári er horft á stærstu flugáætlun í sögu Icelandair.
Þetta kom fram á aðalfundi flugfélagsins, sem haldinn var í gær.
Í ræðu Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair á fundinum, kom fram að árið 2022 hefði verið mikið umbreytingaár í rekstri félagsins.
„Að reka íslenskt flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi er þó ekki sjálfgefið. Þrátt fyrir að við hjá Icelandair séum stanslaust að huga að kostnaði og hvernig er hægt að lágmarka hann, þá gerum við okkur fulla grein fyrir því að flugfélag á Íslandi getur aldrei verið leiðandi á alþjóðlegum mörkuðum hvað varðar kostnað.
Til þess erum við allt of lítil og búum við rekstrarumhverfi sem einkennist af háum kostnaði. Við verðum því að vinna leikinn á tekjuhliðinni og þar höfum við byggt upp mjög sterka innviði og sérstöðu á síðustu áratugum sem eru svo sannarlega að skila sér núna.“
Bogi nefndir nokkur dæmi um hvernig félagið hefur byggt um sterka innviði og sérstöðu á síðustu áratugum. Meðal annars að félagið byggði yfir réttu vörunni sem hentaði umhverfinu sem félagið starfaði í. Að mikil áhersla væri lögð á góða þjónustu og ánægju viðskiptavina og að vörumerki Icelandair væri ótrúlega sterkt miðað við stærð félagsins og Íslands.
Guðmundur Hafsteinsson, stjórnarformaður Icelandair, sagði í ræðu sinni að góð rekstrarskilyrði væru forsenda fyrir sjálfbærri framtíð og til að verja mikilvægan ávinning af flugi og ferðaþjónustu. Huga þurfi að rekstrarumhverfinu bæði hérlendis og alþjóðlega.
Þá nefndi Guðmundur fyrirhugaða löggjöf Evrópusambandsins sem tekur meðal annars til losunarskatts á flugferðir og kröfu um íblöndun flugvélaeldsneytis. Sagði hann að þessi löggjöf hefði í för með sér aukinn kostnað sem myndi leggjast þyngra á íslands umfram önnur lönd. Kæmi það til með að skerða samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga gagnvart erlendri samkeppniverulega, sem og stöðu Íslands sem tengimiðstöðvar í flugi. Flug til, frá og um Ísland myndi því einfaldlega færast annað, þar sem kostnaður yrði ekki jafn íþyngjandi.
„Nái þetta fram að ganga yrðu áhrifin gríðarleg, ekki einungis fyrir Icelandair og íslenska ferðaþjónustu, heldur allt íslenskt atvinnulíf – fiskútflutning og önnur viðskipti – sem og lífsgæði almennings hér á landi.“
Guðmundur sagði að einnig þyrfti að huga að rekstrarumhverfinu hér heima. Að ekki mætti setja á séríslenska skatta og gjöld á flug.
„Þvert á móti þá köllum við eftir að stað aukinna skatta og gjalda verði frekar settir fram hvatar og stuðningur stjórnvalda við sjálfbæra þróun í flugi. Það er það sem mun hraða þróun nýrrar tækni og þar með orkuskiptum og á sama tíma styrkja samkeppnishæfni Íslands. Því það er sterk samkeppnisstaða Íslands sem áfangastaðar og sem tengimiðstöðvar í flugi sem skilar mestum ávinningi fyrir land og þjóð og gerir fjölmörgum fyrirtækjum eins og Icelandair kleift að halda merkjum Íslands á lofti út um allan heim, hér eftir sem hingað til.“