Fyrsta tapárið í 14 ár

Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar.
Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri Varðar. Ljósmynd/Aðsend

Tryggingarfélagið Vörður tapaði 737 milljónum á síðasta ári, en árið á undan var hagnaður upp á 2,5 milljarða. Félagið segir afkomuna aðallega skýrast af óhagstæðum aðstæðum á verðbréfamarkaði sem olli lækkun á öllum helstu eignaflokkum og þar með 3 milljarða neikvæðum viðsnúningi á fjáreignatekjum frá árinu undan. Þá segir einnig að árið hafi verið markað af óvenju miklu tjóni.

Samkvæmt afkomutilkynningu frá félaginu var afkoma fjáreignatekna, en þar falla m.a. verðbréf undir, neikvæð um 707 milljónir. Til samanburðar var afkoma þessa liðar jákvæð um 2,3 milljarða í fyrra.

Tjón jukust umfram iðgjöld

Iðgjöld félagsins hækkuðu um 11% á milli ára og voru 15,2 milljarðar samanborið við 13,7 milljarða árið áður.

Tjón ársins námu jukust hins vegar hlutfallslega meira, eða um 26% og voru 12 milljarðar samanborið við 9,6 milljarða árið áður. Rekstrarkostnaður stóð svo gott sem í stað og nam rúmlega 3 milljörðum. Kostnaðarhlutfallið lækkaði hins vegar úr 20,7% niður í 18,8% milli ára.

Tjónahlutfall félagsins var 79% á árinu og hækkaði úr 69,8% milli ára. Eignir félagsins um áramótin námu samtals 33,2 milljörðum og hækkuðu um 2%.

Almenn starfsemi gekk vel en niðurstaðan vonbrigði

Í afkomutilkynningunni er haft eftir Guðmundi Jóhann Jónssyni, forstjóra Varðar, að almenn starfsemi hafi gengið vel en að rekstrarniðurstaðan sé vonbrigði. „Neikvæð afkoma af fjármálastarfsemi félagsins skýrir að langmestu leyti þá staðreynd að tap varð á rekstri Varðar í fyrsta skipti frá árinu 2008. Þá jókst tjónakostnaður um 26% sem er óvanaleg hækkun milli ára. Afkoma síðasta árs er því lituð af ytri aðstæðum sem erfitt var að sjá fyrir. Þrátt fyrir tímabundinn mótbyr er framtíðin björt.”

Þá telur Guðmundur framtíð félagsins bjartar þátt fyrir mótbyrinn. „Viðskiptavinum fjölgar ár frá ári og framundan eru ótal tækifæri til að láta félagið vaxa og dafna. Með traustan bakhjarl eins og Arion banka, sem er tilbúinn að styðja við félagið og efla, eru spennandi tímar framundan,” er haft eftir honum.

Samkeppnisaðilarnir réttu megin við núllið

Í síðasta mánuði skiluðu helstu samkeppnisaðilar Varðar uppgjöri sínu fyrir síðasta ár. VÍS hagnaðist um 940 milljónir miðað við 7.684 milljónir árið á undan. Sjóvá skilaði einnig hagnaði og var hann 2,7 milljarðar. Var ávöxtun fjárfestingareigna félagsins 3,5%. TM er nú hluti af samstæðu Kviku banka, en í uppgjörstilkynningu kom fram að fjárfestingatekjur félagsins hafi numið 426 milljónum á árinu og ávöxtunin verið 1,2%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK