Um 400 innsendingar í 16 flokkum bárust í ár fyrir Lúðurinn, uppskeruhátíð markaðs- og auglýsingafólks, sem haldinn verður 24. mars í Háskólabíó. Þetta er metfjöldi tilnefninga.
Það eru ÍMARK, samtök íslensks markaðsfólks, í samráði við Samband íslenskra auglýsingastofa, sem standa að verðlaununum. Dómnefnd hefur nú lokið störfum og niðurstöður hennar um það hvaða auglýsingar verða tilnefndar í hverjum flokki verða kynntar á næstu dögum.
Dómefndina í ár skipar fagfólk á sviðinu. Þau eru Ágústa Rut Steinarsdóttir, markaðsstjóri Natan&Olsen, Gunnhildur Karlsdóttir, aðstoðarhönnunarstjóri Brandenburg, Guðmundur Heiðar Helgason, texta- og hugmyndasmiður hjá Tvist, Halldór Ásgrímur Elvarsson, grafískur hönnuður hjá Líparít, Hjalti Karlson, grafískur hönnuður og stofnandi Karlssonwilker, Högni Valur Högnason, hönnunarstjóri Hér&Nú, Lilja Björk Runólfsdóttir, grafískur hönnuður hjá Ennemm, Rósa Hrund Kristjánsdóttir, hönnunarstjóri hjá Hvíta húsinu, Selma Rut Þorsteinsdóttir, yfirhönnunarstjóri Pipar/TBWA, Sveinn Birkir Björnsson, forstöðumaður markaðssamskipta hjá Íslandsstofu, og Katrín M. Guðjónsdóttir sem er formaður dómnefndar.