Síldarvinnslan hagnaðist um tíu milljarða

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar. mbl.is

Hagnaður Síldarvinnslunnar nam á síðasta ári um 75,6 milljónum Bandaríkjadala, eða um 10,2 milljörðum króna, samanborið við hagnað upp á 87,4 milljónir dala árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam rúmlega 91 milljón dala, eða tæpum 12,4 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í ársuppgjöri félagsins sem kynnt var í gær.

Tekjur á árinu námu 310,1 milljón dala (um 42 milljarðar króna), samanborið við 237 milljónir dala árið áður og jukust því um 31% á milli ára. Tekjuaukningin skýrist fyrst og fremst af aukinni loðnuveiði og hækkuðu verð á nánast öllum afurðum á milli ára.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam um 104,6 milljónum dala (14,2 milljarðar króna) og jókst um 20 milljónir dala á milli ára. Fram kemur í uppgjörinu að um 2,2 milljónir dala séu tilkomnar vegna sölu fastafjármuna.

Eigið fé Síldarvinnslunnar var í lok árs um 585 milljónir dala (um 83 milljarðar króna) og eiginfjárhlutfallið um 55,2%. Heildareignir félagsins námu rúmlega einum milljarði dala í lok árs (um 150 milljarðar króna), þar af voru fastafjármunir 873,3 milljónir dala og veltufjármunir 186,5 milljónir dala. Eignirnar jukust um 425,6 milljónir dala á milli ára. Fastafjármunir jukust um 401 milljón dala og munar þar mestu um kaup á 34,2% hlut í Arctic Fish og kaup á Vísi hf.

Kaupin á Arctic Fish og Vísi standi upp úr

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir í uppgjörstilkynningu að reksturinn á fjórða ársfjórðungi síðasta árs hafi verið örlítið lakari en árið 2021, sem skýrst fyrst og fremst af því að veitt var talsvert minna magn af loðnu í desember heldur en í desember árið 2021. Veiðar og vinnsla á síld hafi þó gengið með besta móti á fjórðungnum og veiðar á norsk-íslenskri síld héldu áfram á Austfjarðamiðum.

Nýr Börkur kom til Neskaupstaðar fimmtudag 3. júní 2021.
Nýr Börkur kom til Neskaupstaðar fimmtudag 3. júní 2021. Kristín Hávarðsdóttir

Hann segir þó að árið 2022 sé besta rekstrarár í sögu Síldarvinnslunnar og hafi einkennst af góðum gangi í veiðum og vinnslu.

„Markaðir voru sterkir fyrir afurðir félagsins þrátt fyrir að mikil óvissa og erfiðleikar hafi dunið á okkur í upphafi árs þegar innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Fyrsta verkefni ársins var stærsta loðnuvertíð frá árinu 2003 og þrátt fyrir slæm veðurskilyrði og erfiðar aðstæður til veiða þá tókst engu að síður að spila ágætlega úr vertíðinni og framleiða afurðir fyrir mikil verðmæti,“ segir Gunnþór.

Þá segir hann að tvennt standi sérstaklega upp úr á árinu.

„Í fyrsta lagi eru það kaup félagsins á þriðjungshlut í fiskeldisfyrirtækinu Arctic Fish á Vestfjörðum og í öðru lagi kaup á öllu hlutafé í Vísi hf. Með kaupunum á Vísi er bolfiskstarfsemi Síldarvinnslunnar styrkt verulega. Vísir rekur tvær vinnslur í Grindavík, gerir út sex skip ásamt því að eiga hlut í erlendum framleiðslu- og sölufyrirtækjum. Það er ljóst að með kaupunum á Vísi fylgja spennandi verkefni og tækifæri til að samþætta rekstur samstæðunnar allt frá veiðum og vinnslu til sölu,“ segir hann.

„Með þessum tveimur fjárfestingum hefur efnahagur Síldarvinnslunnar stækkað enn frekar og er það okkar trú að sjávarútvegsfyrirtæki þurfi að hafa sterkan efnahag til að geta tekist á við þær sveiflur sem einkennt geta íslenskan sjávarútveg.“

Háar skattgreiðslur á árinu

Tekjuskattur félagsins fyrir árið 2022 nam 17,8 milljónum dala, eða um 2,5 milljörðum króna. Þá námu aðrar skattgreiðslur félagsins um 5,6 milljörðum króna, en þar af fer tæplega einn milljarður króna í veiðigjöld og um 750 milljónir króna í tryggingagjald. Skattaspor félagsins í heild er um 9,6 milljaðrar króna og um 21 milljarður króna á liðnum þremur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK