Biden segir bankakerfið traust þrátt fyrir fall SVB

Silicon Valley Bank var 16. stærsti banki Bandaríkjanna um áramótin …
Silicon Valley Bank var 16. stærsti banki Bandaríkjanna um áramótin en varð gjaldþrota í síðustu viku. AFP/Noah Berger

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti reyndi að sann­færa al­menn­ing og markaðsaðila að banka­kerfið vest­an­hafs væri traust þrátt fyr­ir fall Silicon Valley Bank í síðustu viku. Titr­ings hef­ur gætt á evr­ópsk­um mörkuðum í dag vegna gjaldþrots­ins og virðast orð Bidens ekki hafa róað fjár­festa þar að fullu, en meira jafn­vægi virðist þó að kom­ast á vest­an­hafs. Þá lagði Biden einnig mikla áherslu á að neyðaraðgerðir vegna gjaldþrots­ins myndu ekki koma niður á skatt­greiðend­um.

SVB hef­ur verið mik­il­væg­ur lán­veit­andi til ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækja víðsveg­ar í Banda­ríkj­un­um síðan á ní­unda ára­tugn­um, en eft­ir­litsaðilar í Banda­ríkj­un­um tóku yfir bank­ann á föstu­dag­inn í kjöl­far áhlaups inni­stæðueig­anda sem tóku út inni­stæður sín­ar.    

Um helg­ina greindi Janet Yell­en, fjár­málaráðherra Banda­ríkj­anna, banda­ríska ríkið myndi ekki bjarga SVB frá gjaldþroti, en banda­ríska fjár­mála­eft­ir­litið tók fram að inni­stæður viðskipta­vina væru tryggðar og að hægt væri að nálg­ast þær í dag.

Biden ít­rekaði þessi skila­boð í stuttu ávarpi í dag. Sagði hann þar að Banda­ríkja­menn gætu treyst því að banka­kerfið væri traust og að fólk gæti nálg­ast inni­stæður sín­ar þegar það þyrfti á þeim að halda.

Hluta­bréfa­markaður­inn í Banda­ríkj­un­um ró­ast

Hluta­bréfa­vísi­töl­ur í Banda­ríkj­un­um voru flest­ar niður á við í upp­hafi viðskipta í dag, en hafa síðan þá að mestu færst yfir núllið. Virðast markaðsaðilar á því að fall SVB sé ekki upp­hafið af nýju fjár­mála­hruni eins og árið 2008, en að vanda­málið ýti und­ir lík­ur á sam­drætti.

Biden lagði mikla áherslu á það í ávarpi sínu að eng­inn kostnaður vegna falls bank­ans myndi lenda á skatt­greiðend­um í Banda­ríkj­un­um. Sagði hann að pen­ing­ar til að greiða inni­stæðueig­end­um kæmu frá inni­stæðutrygg­ing­um sem bank­ar þyrftu að greiða.

SVB var með úti­bú í nokkr­um Evr­ópu­lönd­um og í Bretlandi keypti HSBC bank­inn breska úti­búið fyr­ir eitt pund í tengsl­um við neyðarsam­komu­lag sem Eng­lands­banki hafði yf­ir­um­sjón með. Í Frakklandi og Þýskalandi hafa yf­ir­völd hins veg­ar sagt að fjár­mála­stöðug­leika væri ekki ógnað vegna falls­ins.

Þrátt fyr­ir orð yf­ir­valda í Evr­ópu hafa hluta­bréf í Evr­ópu fallið nokkuð í dag og hafa bank­ar sér­stak­lega orðið illa úti. FTSE 100-vísi­tal­an í Bretlandi hef­ur þannig lækkað um 2,3% og í Þýskalandi og Frakklandi er lækk­un­in rúm­lega 3%.

Hér á landi hafa hluta­bréf einnig lækkað og á það við um bréf allra fyr­ir­tækja á aðall­ista Kaup­hall­ar­inn­ar. Er úr­vals­vísi­tal­an niður um rúm­lega 2%.

16. stærsti banki Banda­ríkj­anna

SVB var orðinn sextándi stærsti banki Banda­ríkj­anna um síðustu ára­mót með eign­ir upp á 209 millj­arða Banda­ríkja­dala og um 175,4 millj­arða dala í inni­stæður. Yell­en sagði á sunnu­dag­inn að yf­ir­völd vildu tryggja að vanda­mál hjá ein­um banka myndu ekki smit­ast yfir til annarra banka, en hún hafnaði hins veg­ar hug­mynd­um um að yf­ir­völd kæmu fjár­mála­fyr­ir­tækj­um og tækni­geir­an­um til aðstoðar á þess­um tím­um. Sagði hún að breyt­ing­ar í kjöl­far hruns­ins 2008 hafi leitt til þess að yf­ir­völd væru ekki að skoða slík­ar aðgerðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK