Joe Biden Bandaríkjaforseti reyndi að sannfæra almenning og markaðsaðila að bankakerfið vestanhafs væri traust þrátt fyrir fall Silicon Valley Bank í síðustu viku. Titrings hefur gætt á evrópskum mörkuðum í dag vegna gjaldþrotsins og virðast orð Bidens ekki hafa róað fjárfesta þar að fullu, en meira jafnvægi virðist þó að komast á vestanhafs. Þá lagði Biden einnig mikla áherslu á að neyðaraðgerðir vegna gjaldþrotsins myndu ekki koma niður á skattgreiðendum.
SVB hefur verið mikilvægur lánveitandi til nýsköpunarfyrirtækja víðsvegar í Bandaríkjunum síðan á níunda áratugnum, en eftirlitsaðilar í Bandaríkjunum tóku yfir bankann á föstudaginn í kjölfar áhlaups innistæðueiganda sem tóku út innistæður sínar.
Um helgina greindi Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, bandaríska ríkið myndi ekki bjarga SVB frá gjaldþroti, en bandaríska fjármálaeftirlitið tók fram að innistæður viðskiptavina væru tryggðar og að hægt væri að nálgast þær í dag.
Biden ítrekaði þessi skilaboð í stuttu ávarpi í dag. Sagði hann þar að Bandaríkjamenn gætu treyst því að bankakerfið væri traust og að fólk gæti nálgast innistæður sínar þegar það þyrfti á þeim að halda.
Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum voru flestar niður á við í upphafi viðskipta í dag, en hafa síðan þá að mestu færst yfir núllið. Virðast markaðsaðilar á því að fall SVB sé ekki upphafið af nýju fjármálahruni eins og árið 2008, en að vandamálið ýti undir líkur á samdrætti.
Biden lagði mikla áherslu á það í ávarpi sínu að enginn kostnaður vegna falls bankans myndi lenda á skattgreiðendum í Bandaríkjunum. Sagði hann að peningar til að greiða innistæðueigendum kæmu frá innistæðutryggingum sem bankar þyrftu að greiða.
SVB var með útibú í nokkrum Evrópulöndum og í Bretlandi keypti HSBC bankinn breska útibúið fyrir eitt pund í tengslum við neyðarsamkomulag sem Englandsbanki hafði yfirumsjón með. Í Frakklandi og Þýskalandi hafa yfirvöld hins vegar sagt að fjármálastöðugleika væri ekki ógnað vegna fallsins.
Þrátt fyrir orð yfirvalda í Evrópu hafa hlutabréf í Evrópu fallið nokkuð í dag og hafa bankar sérstaklega orðið illa úti. FTSE 100-vísitalan í Bretlandi hefur þannig lækkað um 2,3% og í Þýskalandi og Frakklandi er lækkunin rúmlega 3%.
Hér á landi hafa hlutabréf einnig lækkað og á það við um bréf allra fyrirtækja á aðallista Kauphallarinnar. Er úrvalsvísitalan niður um rúmlega 2%.
SVB var orðinn sextándi stærsti banki Bandaríkjanna um síðustu áramót með eignir upp á 209 milljarða Bandaríkjadala og um 175,4 milljarða dala í innistæður. Yellen sagði á sunnudaginn að yfirvöld vildu tryggja að vandamál hjá einum banka myndu ekki smitast yfir til annarra banka, en hún hafnaði hins vegar hugmyndum um að yfirvöld kæmu fjármálafyrirtækjum og tæknigeiranum til aðstoðar á þessum tímum. Sagði hún að breytingar í kjölfar hrunsins 2008 hafi leitt til þess að yfirvöld væru ekki að skoða slíkar aðgerðir.