Eyrir Vöxtur fjárfestir fyrir 250 milljónir í Tulipop

Helga Árnadóttir og Signý Kolbeinsdóttir stofnuðu Tulipop árið 2010 og …
Helga Árnadóttir og Signý Kolbeinsdóttir stofnuðu Tulipop árið 2010 og hafa fylgt félaginu eftir. Árni Sæberg

Fjárfestingarsjóðurinn Eyrir Vöxtur hefur fjárfest í íslenska frumkvöðlafyrirtækinu Tulipop. Eyrir Vöxtur keypti hlut í félaginu fyrir 250 milljónir króna í nýlegri hlutafjáraukningu. 

Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Eyris Vaxtar, að sjóðurinn hafi fylgst með Tulipop byggja upp einstakt íslenskt hugverk fyrir börn á heimsmælikvarða, þar sem áhersla er lögð á gæði og jákvæð skilaboð.

„Markaðstækifærið fyrir slík hugverk er gríðarlega stórt og hlökkum við til að taka þátt í þeirri vegferð sem er framundan við að koma Tulipop á markað alþjóðlega,“ segir Stefanía Guðrún.

Tulipop, sem var stofnað árið 2010, haslaði sér í upphafi völl með framleiðslu varnings þar sem Tulipop persónurnar eru í lykilhlutverki, en hefur síðastliðin ár lagt megináherslu á að þróa og framleiða afþreyingarefni sem byggir á Tulipop heiminum. Stærsta verkefni félagsins hefur verið framleiðsla teiknimyndaþáttaraðarinnar Ævintýri Tulipop, en stefnt er að framleiðslu á fjórum þrettán þátta þáttaröðum og vinna í dag um 100 manns að framleiðslu þáttaraðarinnar, bæði á Íslandi og erlendis. Ævintýri Tulipop er fyrsta íslenska teiknimyndaþáttaröðin sem fer í alþjóðlega dreifingu.

Sögupersónur Ævintýra Tulipop.
Sögupersónur Ævintýra Tulipop.

Á Íslandi var fyrsta þáttararöðin af Ævintýri Tulipop frumsýnd í Sjónvarpi Símans Premium á síðasta ári en einnig er þáttaröðin komin í sýningar hjá NRK í Noregi, YLE í Finnlandi og munu sýningar hefjast í fjölda annarra landa á komandi vikum. Ævintýri Tulipop fengu nýverið tilnefningu til Edduverðlaunanna, í flokknum besta barnaefni síðasta árs.

„Það er virkilega ánægjulegt að fá Eyri Vöxt inn í hóp sterkra hluthafa, en félagið stendur á mjög spennandi tímamótum nú þegar teiknimyndaþáttaröðin Ævintýri Tulipop er í þann mun að fara í sýningar víða um heim,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK