Formleg tillaga um afskráningu Origo lögð fram

Gunnar Páll Tryggvason er framkvæmdastjóri Alfa framtaks sem rekur sjóðinn …
Gunnar Páll Tryggvason er framkvæmdastjóri Alfa framtaks sem rekur sjóðinn sem nú tekur yfir meirihluta í Origo. Hallur Már

Til­laga um af­skrán­ingu Origo úr Kaup­höll­inni hef­ur verið lögð fram fyr­ir aðala­fund fé­lags­ins sem fram fer í næstu viku. Það er AU 22 ehf., fé­lag í eigu Umbreyt­ing­ar II slhf., fram­taks­sjóðs í rekstri Alfa fram­taks, sem legg­ur til­lög­una fram. AU 22 ehf. er stærsti eig­andi fé­lags­ins og fer nú með um 63% hlut. Í kjöl­far söl­unn­ar á Tempo er markaðsvirði Origo það lægsta á Aðal­markaði Kaup­hall­ar­inn­ar.

Til­lag­an um af­skrán­ingu kem­ur ekki á óvart, enda hef­ur fé­lagið áður kynnt að til greina komi að taka fé­lagið af Aðal­markaði Kaup­hall­ar­inn­ar. „Í kjöl­far þeirra kafla­skila sem fel­ast í sölu fé­lags­ins á eign­ar­hlut sín­um í Tempo og með hliðsjón af þeim áskor­un­um sem fé­lagið stend­ur frammi fyr­ir er það skoðun AU 22 að fé­lag­inu sé bet­ur farið utan hluta­bréfa­markaðar,“ seg­ir í til­kynn­ingu frá fé­lag­inu þar sem til­lag­an er lögð fyr­ir aðal­fund.

„Eins og lýst er í til­boðsyf­ir­liti sér AU 22 marg­vís­leg tæki­færi til umbreyt­inga á vett­vangi fé­lags­ins, meðal ann­ars með því að skerpa enn frek­ar á þjón­ustu­fram­boði og skipu­lagi þess, og tel­ur að af­skrán­ing fé­lags­ins úr Kaup­höll­inni sé nauðsyn­leg í því augnamiði að skapa fé­lag­inu sveigj­an­leika til þess að grípa þau tæki­færi,“ seg­ir einnig í til­kynn­ing­unni. Þá er einnig tekið fram að viðskipti með bréf í fé­lag­inu hafi ekki verið mik­il og leiða megi lík­um á því að viðskipt­in eigi eft­ir að minnka enn frek­ar eft­ir breyt­ing­ar á eign­ar­haldi.

Þá kem­ur fram að hlut­höf­um fé­lags­ins hafi fækkað veru­lega og eru þeir nú um 420 tals­ins, en voru um 930 í lok síðasta árs. Bent er á að fag­fjár­fest­ar séu fyr­ir­ferðamest­ir í hópi tutt­ugu stærstu hlut­hafa Origo og að bæði beinn og óbeinn kostnaður við skrán­ingu sé hlut­falls­lega hár í sam­hengi við markaðsvirði og rekstr­ar­hagnað fé­lags­ins.

„Þær umbreyt­ing­ar í rekstri fé­lags­ins sem AU 22 vill leiða og gætu meðal ann­ars fal­ist í auknu sjálf­stæði ein­stakra rekstr­arein­inga, aðkomu meðfjár­festa að til­tekn­um rekstr­arein­ing­um og upp­kaup­um á hent­ug­um viðbót­arein­ing­um gætu valdið um­tals­verðum sveifl­um í af­komu fé­lags­ins á næstu árum,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK