Nýjasta bók dr. Friðriks Larsen, Sustainable Energy Branding – Helping to Save the Planet, var gefin út af Routledge í byrjun mánaðar en útgáfuhóf hennar fór fram í sendiráði Íslands í Lundúnum. Margir stjórnendur stærstu orkufyrirtækja í Evrópu voru meðal gesta. Bókin er byggð á viðtölum við forstjóra og markaðsstjóra stærstu orkufyrirtækja heims. Friðrik segir í samtali við Morgunblaðið að grunnhugmynd bókarinnar sé að sýna fram á hversu nauðsynlegt virkt markaðsstarf og vörumerkjastjórnun orkufyrirtækja er fyrir orkuskiptin.
Í ávarpi í útgáfuhófinu sagði Friðrik að umræða um orkuskipti snúist oft of mikið um verkfræði, tækni og fjármögnun en á sama tíma væri að aukast vitund fyrir því að virkur skilningur og þátttaka einstaklinga sé nauðsynlegt svo hámarksárangur náist. Ein leið til að sá skilningur náist sé að eiga skilvirk samskipti í gegnum vel skilgreind vörumerki. Vörumerki geti þannig vel náð yfir hugtök rétt eins og fyrirtæki og gagnast vel til að hafa áhrif á skoðanir fólks. Í þessu tilviki til góðs að hans mati.
Friðrik sagði þó að skilningur hefði verið takmarkaður á þessu innan orkugeirans og því vonaðist hann til að bókin myndi auka þann skilning og hvernig vörumerkjastjórnun getur nýst sem hagnýtt tól í baráttunni um hreinni heim og brotthvarf frá notkun jarðefnaeldsneytis.
„Það kann að hljóma undarlega en staðreyndin er sú að jafnvel besta nýja tæknin, sem hjálpar til við gerð enn hreinni orku, nær verri fótfestu ef hún er ekki markaðssett rétt,“ sagði hann.