Á ÍMARK deginum, þann 24. mars næstkomandi, verða veitt verðlaun fyrir árangursríkustu auglýsingaherferðina 2022. Árangursverðlaunum er ætlað að beina sjónum að herferðum sem skilað hafa framúrskarandi árangri og er lykilþáttur í mati dómnefndar sönnun á árangri.
Dómnefndin er skipuð fagfólki hvert á sínu sviði úr atvinnulífinu en í ár voru í dómnefnd: Arnar Gísli Hinriksson, Brynjar Þór Þorsteinsson, lektor við háskólann á Bifröst, Gunnar B. Sigurgeirsson, aðstoðarforstjóri Ölgerðarinnar, Hildur Björk Hafsteinsdóttir, forstöðumaður markaðsmála og upplifunar hjá Isavia, Lóa Bára Magnúsdóttir, markaðsstjóri Origo, Ólafur Þór Gylfason, sviðsstjóri markaðsrannsókna hjá Maskínu, og Salóme Guðmundsdóttir, forstöðumaður í viðskiptaþróun hjá PayAnalytics. Formaður dómefndar fyrir hönd ÍMARK er Karen Ósk Gylfadóttir, sviðsstjóri markaðssmála og stafrænna lausna hjá Lyfju.
Samkvæmt upplýsingum frá ÍMARK voru innsendingarnar í ár fjölbreyttar og átti dómefnd erfitt verk fyrir höndum að velja úr þeim. Tilnefningarnar verða kynntar á morgun, miðvikudaginn 15. mars.