Svissneski seðlabankinn kveðst reiðubúinn til að bæta lausafjárstöðu bankans Credit Suisse, reynist hann þurfa þess. Þetta segir í yfirlýsingu sem seðlabankinn gaf út rétt í þessu.
Þar er einnig tekið fram að Credit Suisse uppfylli þegar eiginfjár- og lausafjárkröfur yfirvalda, sem gerðar eru gagnvart kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum.
Fyrr í kvöld var greint frá því að Credit Suisse hefði biðlað til seðlabanka Sviss að lýsa opinberlega yfir stuðningi við bankann.
Bankinn, sem þegar var viðriðinn ýmis hneykslismál áður en bankar vestanhafs tóku að falla, fékk slæma útreið á hlutabréfamarkaðnum í dag eftir að ljóst varð að stærsti hluthafinn, Saudi National Bank, útilokaði að leggja til hans meira fé.
Gengi hlutabréfa í Credit Suisse hrundi um allt að 30% í dag en þegar markaðir í Evrópu lokuðu nú síðdegis nam gengisfallið rúmlega 24%.