Borgar sig að efla háskólana

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á Iðnþingi í …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á Iðnþingi í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir vísbendingar um að samdráttur í fjárveitingum til íslenskra háskóla sé farinn að bitna á gæðum náms og samkeppnisstöðu þjóðarinnar.

„Eftir efnahagshrunið, upp úr 2008, var dregið verulega úr ríkisútgjöldum almennt en nokkrum árum síðar fóru þau upp á við í ýmsum málaflokkum – en háskólarnir sátu eftir," segir Áslaug Arna í samtali við mbl.is.

„Við erum með ýmsar vísbendingar núna að þetta sé farið að bitna á gæðum námsins og samkeppnisstöðu háskólanna í alþjóðlegu samhengi. Það er miður og við verðum að gera allt sem hægt er til að styrkja stöðu háskólanna. Nú þegar eru ýmsar aðgerðir farnar í gang, svo sem aukið samstarf skólanna, en við komumst ekki þangað sem við ætlum okkur nema að bætt verði úr fjármögnun skólanna," segir hún.

Í skýrslu starfshóps um gæði og skilvirkni í háskólum sem unnin var fyrir mennta og menningarmálaráðuneytið árið 2021 kemur fram að fjárveitingar til háskólanna hafi fylgt þróun nemendafjölda fram til ársins 2009. Fjárveitingarnar hafi aftur á móti dregist saman eftir hrun á sama tíma og nemendum fjölgaði. Fjárveitingar hafa síðan þá ekki fylgt þróun nemendafjölda.

Þróun heildarútgjalda til háskólanna og fjölda nemenda.
Þróun heildarútgjalda til háskólanna og fjölda nemenda.

Órjúfanlegt samspil menntunar, atvinnulífs og hagvaxtar

Áslaug Arna gerði stöðu íslenskra háskóla skil í erindi sínu á Iðnþingi í síðustu viku og tengdi þar stöðu háskólanna við þær áskoranir sem atvinnulífið stendur frammi fyrir. Benti hún þar á órjúfanlegt samspil menntunar, atvinnulífs og hagvaxtar og undirstrikaði nauðsyn þess að stoðir íslensks efnahagslífs verði fleiri og fjölbreyttari.

Innt nánar eftir þessu segir Áslaug Arna nauðsynlegt að við beinum spjótum okkar að því hvernig við komumst út úr sveiflukenndu hagkerfi til lengri tíma.

„Stoðir efnahagslífsins þurfa að vera fleiri og fjölbreyttari og í þau tækifæri þurfum við fólk. Það þarf að taka ákvörðun að vaxa út úr vandanum sem við blasir og þá verður að fjárfesta í menntun. Hvort sem litið er til stórtækra áforma í landeldi eða stærsta vaxtartækifæri efnahagslífsins í alþjóðageiranum þá raungerast þau ekki nema að ganga að menntuðu fólki. Fjárfesting í háskólunum styður okkur því út úr sveifluhagkerfinu og gerir okkur það mögulegt að mæta áskorunum eins og öldrun þjóðarinnar,“ segir hún.

Í erindi ráðherrans á Iðnþingi kom fram að Háskólinn í Reykjavík (HR) sé í 301. – 350. sæti yfir bestu háskóla í heimi á lista Times Higher Education, og Háskóli Íslands (HÍ), sem eitt sinn stefndi að því að vera á meðal 100 bestu háskóla í heimi, sé nú í 501. – 600. sæti á listanum.

Hér er ein af þeim glærum sem Áslaug Arna varpaði …
Hér er ein af þeim glærum sem Áslaug Arna varpaði upp á Iðnþingi og sýnir stöðu skólanna í alþjóðlegum samanburði.

Ástæðu dapurlegrar stöðu megi ekki síst rekja til gæða náms og rannsókna. Ráðherra lýsti því að íslenskir háskólar standi þar illa í samanburði við aðra norræna háskóla. Af 37 norrænum háskólum er HÍ í 32. sæti hvað gæði kennslu varðar og HR neðstur allra. Hvað varðar gæði rannsókna er HÍ í 19. sæti og HR í 32. sæti af skólunum 37.

Háskólamenntun stráka „grjóthart“ efnahagsmál

Í erindi ráðherra kom fram að hlutfall háskólanema á Íslandi sem útskrifast úr svokölluðum STEAM greinum sé tæpur fimmtungur og hafi staðið í stað frá aldamótum. Hlutfallið hér sé mun lægra en hjá hinum Norðurlöndunum. Til skýringar þá eru STEAM greinar nám á sviði vísinda, tækni, verkfræði, stærðfræði og lista.

Hlutfall 25-34 ára sem höfðu lokið háskólanámi árið 2021 var 42% á Íslandi, samanborið við 48% að meðaltali í OECD löndunum. Þess má geta að hlutfallið var 55% í Noregi og 49% í Danmörku og Svíþjóð. Munurinn á háskólamenntunarhlutfallinu á Íslandi í samanburði við OECD meðaltalið skýrist eingögnu af því að færri karlmenn útskrifast úr háskólanámi hér en hjá samanburðarlöndunum. Í erindinu benti ráðherra á að fyrir hverja stúlku sem hverfur frá námi í framhaldsskóla hætti nú tveir piltar námi, en hlutfall þetta var nærri jafnt skólaárið 2015-2016. Staðan sé hvergi verri í Evrópu.

Hlutfall 25-34 ára sem höfðu lokið háskólanámi árið 2021 var …
Hlutfall 25-34 ára sem höfðu lokið háskólanámi árið 2021 var 42% á Íslandi, samanborið við 48% að meðaltali í OECD löndunum

Fram hefur komið að á næstu fimm árum þurfi 9.000 sérfræðinga til að standa undir vexti íslensks hugverkaiðnaðar. Ráðherra benti á að ef hlutfall karla sem ljúka námi á næstu fimm árum væri á pari við OECD meðaltalið myndi það útvega um 7.500 auka sérfræðinga.

„Hér er því um að ræða grjóthart efnahagsmál," segir Áslaug Arna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK