Stjórn Íslandsbanka samþykkti á aðalfundi sínum í dag heimild bankans til kaupa á eigin hlutum. Heimildin gildir í 18 mánuði.
Þetta er samþykkt á grundvelli 55. gr. laga um hlutafélög. Þar er hlutafélögum gefin heimild til að eignast allt að 10% af eigin hlutafé.
Heimildinni hefur verið bætt við í viðauka við samþykktir Íslandsbanka.
„Heimild þessi skal nýtt í þeim tilgangi að setja upp formlega endurkaupaáætlun eða til að gera hluthöfum almennt tilboð um kaup bankans á eigin bréfum, t.d. með útboðsfyrirkomulagi, enda sé jafnræðis hluthafa gætt við boð um þátttöku í slíkum viðskiptum,“ segir í viðaukanum.
Þá kemur fram að framkvæmd endurkaupa á grundvelli heimildarinnar sé háð því skilyrði að fyrirfram fáist samþykki fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, samkvæmt 77. gr. reglugerðar ESB um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki (CRR).