Bráðabirgðaniðurstöður Hagstofu Íslands gefa til kynna að þrátt fyrir að ráðstöfunartekjur heimila hafi aukist um rúmlega níu prósent árið 2022 hafi kaupmáttur þeirra dregist saman um 1,7 prósent á mann á sama tíma.
Þetta kemur fram í nýrri samantekt Hagstofunnar.
Þá er reiknað með því að ráðstöfunartekjur hafi aukist um 9,1 prósent á fjórða ársfjórðungi 2022 sé litið til sama tímabils árið 2021. Ráðstöfunartekjurnar á mann hafi þá numið rúmlega 1,25 milljónum króna en sé tekið tillit til verðlagsþróunar hafi kaupmáttur ráðstöfunartekna dregist saman um tæp 3,4 prósent á ársfjórðungnum en á sama tíma hafi vísitala neysluverðs hækkað um 9,4 prósent.
Samantektin leiðir einnig í ljós að heildartekjur heimila hafi aukist um 9,9 prósent í fyrra og þá er einna helst átt við launatekjur en aukning launatekna nam um 260 milljörðum króna. Hvað varðar skýringu á aukningu launatekna eru launahækkanir og dvínandi atvinnuleysi sagðar vera aðal ástæðurnar.
Frekari upplýsingar má sjá á vef Hagstofu Íslands með því að smella hér.