UBS í viðræðum um kaup á Credit Suisse

Dökkir skuggar eru nú yfir Credit Suisse og ýmsar leiðir …
Dökkir skuggar eru nú yfir Credit Suisse og ýmsar leiðir ræddar til þess að laga stöðu hans. AFP/Fabrice Coffrini

Svissneski bankinn UBS íhugar nú að taka yfir Credit Suisse-bankann að hluta eða í heild, samkvæmt heimildum Financial Times. Munu stjórnir bankanna tveggja funda í sitt hvoru lagi um helgina til að ræða hinn mögulega samruna. 

Seðlabanki Sviss og Finma, svissneska fjármálaeftirlitið, standa að viðræðunum, en þeim er ætlað að auka traust á bankakerfi landsins í kjölfar þess að seðlabankinn neyddist til þess að veita Credit Suisse neyðarlánalínu upp á 50 milljarða svissneskra franka, eða sem nemur um 7.578 milljörðum íslenska króna.

Verð á hlutum í bankanum hélt hins vegar áfram að lækka í kjölfar tilkynningar svissneska seðlabankans, en stærsti hluthafi bankans útilokaði að veita honum meira fjármagn. UBS er verðmetinn á um 56,6 milljarða bandaríkjadali, en hlutabréf í Credit Suisse voru skráð á samtals átta milljarða bandaríkjadali við lok markaða í dag. 

Samkvæmt heimildarmönnum FT hafa svissneskir embættismenn sagt bandarískum og breskum kollegum sínum að samruni bankanna tveggja sé „Plan A“ til að endurreisa traustið á Credit Suisse. Bankarnir tveir munu einnig vera að ræða nokkra aðra kosti, auk þess sem UBS er að íhuga hvaða áhættu bankinn geti sjálfur borið af samrunanum. 

Svissneski seðlabankinn mun leggja sérstaka áherslu á að einföld lausn sé komin á málið áður en markaðir opna á mánudaginn, en ekki er talið öruggt að samkomulag muni nást samkvæmt heimildum FT.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK