Sagði Ásgeir sinna þriðju vaktinni á heimilinu

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sinnir þriðju vaktinni á heimilinu á meðan Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra eyðir peningum og stendur ekki í stykkinu.

Þetta sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingkona Viðreisnar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar var rætt við hana og Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um efnahagsmálin í landinu.

Þorbjörg Sigríður kvaðst gera ráð fyrir því að vextir hækkuðu á miðvikudaginn og tók undir með Katrínu Ólafsdóttur hagfræðingi um að ríkisfjármálunum hefði ekki verið beitt af nægilega miklum þunga til að auðvelda Seðlabanka Íslands verkið.

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér finnst stundum þegar ég horfi á tvo góða menn, Ásgeir seðlabankastjóra og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra, að þá fá menn mynd af þessu samtali sem var í gangi fyrir ekki svo löngu um verkaskiptingu á heimilinu og þriðju vaktina,“ sagði Þorbjörg.

Hún nefndi að Ásgeir væri í raun og veru að segja að hann væri alltaf að hækka vexti, taka erfiðu samtölin og tala til þjóðarinnar. „Ég skúra og ryksuga hérna og við getum ekki rekið heimilið svona á vaxtahækkunum. Bjarni, þú verður að halda betur í veskið,“ sagði Þorbjörg og uppskar hlátur.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ásgeir er með þriðju vaktina,“ sagði hún og bætti við að hann ryksugaði, skúraði, sæti einn á blaðamannafundum og færði þjóðinni vondar fréttir „á meðan Bjarni stendur og segir: „Guys, erum við ekki öll saman í þessu?““

Þorbjörg sagði að Bjarni þyrfti að fara að gera sitt, þ.e. það sama og hann talaði um þegar hann kynnti fjárlögin í september; að sýna aðhald.

Skortur á langtímasýn

Hún hélt áfram og sagði að þörf væri á langtímasýn um hvernig skyldi hagræða í ríkisrekstri. Plön fjármálaráðherra væru að halda áfram að reka ríkissjóð með halla út árið 2027. „Hallinn var byrjaður fyrir Covid. Þetta eru ekki allt Covid-afleiðingar. Ég ætla að vera Team-Ásgeir hérna í dag og biðja Bjarna að skilja hann ekki einan eftir.“

Lilja Alfreðsdóttir tók þá til máls og sagði þetta eina skemmtilegustu myndlíkingu sem hún hefði heyrt lengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka