Staða svissneska bankans Credit Suisse er ekki lýsandi fyrir stöðu banka í Evrópu eða stöðu íslensku bankanna að mati Snorra Jakobssonar hagfræðings.
„Nei hún er ekki lýsandi. Þessi banki er tossinn í bekknum,“ segir Snorri þegar mbl.is hefur samband og leitar álits hjá honum á stöðunni. Hann bendir á að vandamál Credit Suisse séu ekki ný af nálinni en ekki hafi verið tekið á því á sínum tíma.
„Þetta var illa rekinn banki og hvert hneykslismálið á fætur öðru hefur komið upp í tengslum við bankann. Peningaþvætti og fleira. Mig grunar að bankinn hafi verið með mörg slæm lán og slíkt getur haft áhrif á reksturinn árum og áratugum saman.“
Samningaviðræður stóðu yfir um helgina varðandi yfirtöku svissneska bankans UBS á bankanum Credit Suisse, og var öllum árum róið að því að ná samkomulagi áður en markaðir opnuðu. Svissneska ríkið beitti sér í viðræðunum og samningar tókust í kvöld, í tæka tíð. Hvernig blasir það við Snorra?
„Það blasir vel við mér vegna þess að eftir stendur miklu öflugra fyrirtæki heldur en ef reynt væri að tjasla saman Credit Suisse. Vandamálin hjá Credit Suisse eru fimmtán ára gömul. Bankinn er bæði illa rekinn og kannski var ekki tekið nógu vel til í Sviss eftir bankahrunið. Grípa hefði mátt fyrr inn í varðandi Credit Suisse,“ segir Snorri en ef yfirtakan hefði ekki gengið upp?
„Svissneska ríkið studdi við bankann á dögunum. Þá hefði þetta bara áfram og ég ímynda mér að áfram hefði verið reynt að selja bankann. Það er ekki mikið peningamagn í umferð á markaði og eignir þeirra sem eiga ekki peninga fara oft á brunaútsölu.“
Bandaríski bankinn Silicon Valley féll á dögunum og í framhaldinu verður þessi atburðarás í Sviss. Spurður um hvort bankar eigi almennt séð erfitt með að endurfjármagna sig um þessar mundir segir Snorri að staða íslensku bankanna sé talsvert frábrugðinn þeirri sem blasir við hjá Credit Suisse.
„Það er mjög mikið eftirlit með íslenska bankakerfinu og við erum í raun með öflugt kerfi hér á Íslandi. Credit Suisse var veikasti hlekkurinn í keðjunni og því slæmt að ekki væri búið að taka á þessu vandamáli fyrir löngu síðan. En Svisslendingarnir eru mjög íhaldssamir í þessum efnum. Íslensku bankarnir eru með ný lán og byrjuðu með hreint borð,“ segir Snorri Jakobsson hagfræðingur og eigandi greiningarfyrirtækisins Jakobsson capital.