Hlutabréfavísitölur í Evrópu hafa þokast upp á við í viðskiptum í dag eftir að hafa byrjað með smá dýfu við upphaf viðskipta. Meiri pressa hefur þó verið á hlutabréfum banka sem flest hafa lækkað í dag.
Seðlabankar Bandaríkjanna, Bretlands, Kanada, Japans, Sviss og Evrópusambandsins tilkynntu í gærkvöldi að þeir ætluðu að standa saman að aðgerðum til þess að bæta aðgang banka að lausafé, en aðgerðunum var ætlað að róa taugar fjárfesta varðandi bankakerfi heimsins. Hafði fyrr í gær verið tilkynnt um að svissneski UBS-bankinn myndi kaupa Credit Suisse-bankann, en svissnesk stjórnvöld lögðu mikið kapp á að kaupin næðu í gegn fyrir opnun markaða í dag.
Evrópski seðlabankinn sagði í yfirlýsingu í morgun að evrópska bankakerfið væri úthaldsgott og hefði nægt lausafé.
Eins og fyrr segir tóku flestir markaðir í Evrópu dýfu við upphaf viðskipta í morgun. Lækkuðu bréf banka nokkuð og fóru bréf Deutsche bank m.a. niður um 10% og BNP Paribas um 8%. Þegar leið á morguninn tóku hlutabréf hins vegar að hækka á ný og eru bréf bankanna tveggja nú niður um tæplega 2%.
Bréf í UBS-bankanum lækkuðu strax í morgun um 13%, en hafa síðan hækkað nokkuð og er lækkun dagsins nú í um 3,3%.
Breska FTSE 100-vísitalan hefur nú á tólfta tímanum hækkað um 0,3% í viðskiptum í morgun. DAX-vísitalan í Þýskalandi um 0,56% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi um 0,75%.